140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

orð forsætisráðherra um krónuna.

[10:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel ekki að íslenska krónan sé ónýt og hef margsagt það, ég hef marglýst viðhorfum mínum til hennar. Ég hef þvert á móti haldið hinu fram, að að mörgu leyti úr því sem komið var, úr því að hér varð þetta efnahagshrun, hafi það hjálpað upp á aðlögunina að við höfðum okkar eigin gjaldmiðil sem gat með því að veikjast í raun mýkt aðlögun hagkerfisins að nýjum raunveruleika í efnahagsmálum sem við Íslendingar höfum staðið frammi fyrir undanfarin missiri. Það er að sjálfsögðu ekki án fórna heldur, það er ekki þannig. Það eru kostir og gallar við það eins og flest annað í þessum efnum. Það eru engar einfaldar patentlausnir til, hvorki þær að hafa eigin gjaldmiðil né heldur að tengja sig stærri markaðssvæðum.

Það er alveg ljóst að framtíð mjög lítils gjaldmiðils í opnu hagkerfi með frjálsum fjármagnshreyfingum er vandasöm framtíð. Hún mun gera mjög miklar kröfur til agaðrar hagstjórnar og (Forseti hringir.) mikillar ábyrgðar í ríkisfjármálum og menn verða væntanlega alltaf (Gripið fram í: … ummæli skaðleg?) að sætta sig við að því fylgir nokkur fórnarkostnaður að verja (Forseti hringir.) það sjálfstæði sem fólgið er í sjálfstæðri peningastefnu og gjaldmiðli. (Forseti hringir.) Ég tel að það eigi að tala af ábyrgð og yfirvegun um öll þessi mál.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn og ráðherra að virða tímamörk í þessari umræðu.)