140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[10:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil ekki vera ókurteis við hæstv. forsætisráðherra en ég velti fyrir mér hvort ráðherrann hafi lesið þessar skýrslur og hvort hún átti sig á því hvaða stöðu þessar skýrslur hafa af hálfu Evrópusambandsins þegar Evrópuþingið er búið að samþykkja þau skilyrði sem sett eru fyrir framhaldi málsins. Það er líka sorglegt ef íslenska ríkisstjórnin hefur ekki tekið þetta mál til skoðunar í því ferli þegar henni gafst hugsanlega tækifæri til þess án þess þó að ég ætli að segja að það hafi verið möguleiki á því.

Það er fullkominn misskilningur hjá forsætisráðherra að það séu tveir sjálfstæðir samningsaðilar hér við borð. Umsóknin fer inn á forsendum Evrópusambandsins og við leggjum okkur þar undir, m.a. Kaupmannahafnarviðmiðin um að geta sótt um. Forsætisráðherra hefur ítrekað tjáð sig mjög á þessum vettvangi, nú síðast um gjaldeyrismál. Hún fær sérstakt hrósyrði frá Stefan Füle (Forseti hringir.) fyrir það hversu einbeitt hún sé í aðildarferli sínu að Evrópusambandinu. Það er mjög eðlilegt að hún verði í forsvari fyrir sameinaða ríkisstjórn í þessu máli og ég krefst þess að þetta mál verði rætt (Forseti hringir.) á Alþingi hið allra fyrsta og að forsætisráðherra verði þar til svara.