140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

fjölgun starfa.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég deili því sannarlega með hv. þingmanni að ég vildi sjá atvinnuleysistölur fara neðar en þær hafa gert. Þær hafa þó vissulega verið að fara niður miðað við bæði árin 2011 og 2012 og það verulega. Ég held að það sé nokkur sannleikur til í því, meira að segja tölur Hagstofunnar sýna að meðal 29 ríkja ESB og EES eru aðeins fimm með lægri atvinnuleysistölur en Ísland. Það er nokkuð til að státa sig af og ég held að við eigum ekki að (Gripið fram í.) tala ástandið niður heldur að tala kjark í fólk.

Ég hygg að á þessu séu ýmsar skýringar sem hv. þingmaður nefnir. (Gripið fram í.) Við höfum gert átak í því, sem er sambærilegt og Finnar gerðu, að koma fólki af atvinnuleysisskrá yfir í nám og ýmis vinnumarkaðsúrræði. Ég hygg að það sé ein skýringin. Hlutastörfum hefur fækkað og að sama skapi hefur heilsdagsstörfum fjölgað. Ég býst líka við að fyrirtæki séu þannig í stakk búin að þegar við fórum í gegnum erfiðasta hjallann í þessari kreppu hafi þau losað sig við eitthvert fólk sem er kannski verið að taka inn aftur með einhverjum hætti þó að það sé ekki í verulegum mæli. Ég held að við getum alveg verið sæmilega bjartsýn um það, eins og ég hef oft sagt úr þessum ræðustól, að það geti haldið. Það eru allar forsendur fyrir því að þær atvinnuleysistölur sem til dæmis kjarasamningarnir byggðu á um að atvinnuleysi væri komið niður í 4–5% á kjarasamningstímanum standist. Miðað við ýmislegt sem er í gangi í hagkerfinu getum við vel verið bjartsýn um að það takist.

Á þessu eru skýringar sem ég gat hér um. Ég er sérstaklega ánægð með þessa aðgerð sem ríkisvaldið fór í, að taka (Forseti hringir.) fólk af atvinnuleysisskrá og koma því í nám. Það hefur verulega hjálpað til í þeirri stöðu sem við erum í og mun alveg örugglega tryggja þetta fólk betur (Forseti hringir.) inn í framtíðina varðandi atvinnu.