140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

málefni aldraðra og heilbrigðisþjónusta.

307. mál
[11:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er sérstakt fagnaðarefni sem lagt er til hér í breytingartillögu frá velferðarnefnd um orðnotkun en eins og hv. síðasti ræðumaður gat um komu fulltrúar frá Landssambandi eldri borgara og bentu á þessi atriði og töluðu um að eðlilegra væri að nota orð eins og eftirlaunafólk í staðinn fyrir ellilífeyrisþega, dagdvöl í staðinn fyrir dagvist eins og nú er og tala um heimilismann í staðinn fyrir vistmann og tala um færni- og heilsumat í staðinn fyrir vistunarmati.

Virðulegi forseti. Þetta voru mjög góðar tillögur sem komu fram frá Landssambandi eldri borgara en það var líka mjög gott að nefndin sem slík hlustaði á þær tillögur og gerði þær að sínum hér til breytingar á því frumvarpi sem lagt hefur verið fram og verið er að fjalla um, sem er um samræmt mat. Þetta sýnir aukið sjálfstæði nefnda Alþingis því að hér eru þessar fjölmörgu breytingartillögur settar fram og það ber að fagna því sérstaklega (Forseti hringir.) hvað hér hefur tekið vel á málum í velferðarnefnd.