140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

umræður um fundarstjórn -- orð ráðherra -- málefni lögreglu.

[11:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að ástæða sé til að þakka frú forseta yfir höfuð að fá að koma hingað upp til að ræða um fundarstjórn forseta. Ég óskaði eftir því áðan og það er fáheyrt, ef ekki einsdæmi, að þingmanni sé neitað að koma upp og ræða fundarstjórn forseta.

Það sem ég vildi ræða við frú forseta og um fundarstjórn hennar er framganga þingmanna í ræðustóli Alþingis og að forseti Alþingis láti það óátalið að hæstv. forsætisráðherra komi hingað upp og fari með rangindi þegar hún segir að það sé stefna Framsóknarflokksins að taka einhliða upp kanadískan dollar. Það er ekki verið að ræða um nein smámál þar (Gripið fram í.) og ég fer fram á það við frú forseta að hún áminni forsætisráðherra [Frammíköll í þingsal.] fyrir að fara með rangt mál, og ég ætla að minna hv. þm. Árna Pál Árnason á að þingflokksformaður Samfylkingarinnar fór líka með þá staðlausu stafi héðan úr ræðustól Alþingis í gær. Ég tel það (Forseti hringir.) mikilvægt fyrir virðingu þingsins að menn fari með rétt mál. Það er mikilvægt.