140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

umræður um fundarstjórn -- orð ráðherra -- málefni lögreglu.

[11:19]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka undir þetta og beina því til frú forseta að athuga hvar þetta mál er statt. Þetta er mikilvægt mál sem mikið hefur verið fjallað um í nefndinni í vetur og er nokkuð rík samstaða um þó að auðvitað séu skiptar skoðanir um jafnstórt og viðamikið mál eins og forvirkar rannsóknarheimildir. Það er gríðarlega brýnt að afgreiða þetta mál núna. Það styttist í að síðasti dagur fyrir ný mál inn í þingið renni upp og fáir þingdagar til 1. apríl.

Það hefur verið staðfest að margar vikur eru síðan málið var afgreitt út úr þingflokki Samfylkingar og ég hef fengið þær upplýsingar frá hæstv. innanríkisráðherra að þess sé að vænta innan fárra daga. Vona ég að það standi og ég efast reyndar ekkert um það af því að annars munum við að sjálfsögðu fara þá leið sem hv. þingmaður nefndi, að afgreiða þingsályktunartillöguna en ég beini því til frú forseta að kalla eftir málinu. Ef báðir þingflokkarnir hafa afgreitt það hlýtur það að vera einhvers staðar annars staðar statt. Hér er um að ræða stórmál sem snertir grundvöll baráttunnar gegn hinni skipulögðu glæpastarfsemi sem nú veður uppi á Íslandi.