140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[12:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni og formanni atvinnuveganefndar, Kristjáni L. Möller, fyrir yfirgripsmiklu ræðu. Það er gaman að því að þessi tillaga komi aftur til þings núna um miðjan mars þegar rétt um tvö ár eru liðin frá því að þessi vegferð hófst, en það var einmitt í lok mars árið 2010 sem ég ásamt þingmönnum úr öllum flokkum á Alþingi lagði fram tillögu um að stofnuð yrði nefnd sem færi yfir þennan málaflokk og legði fram tillögur um hvernig mætti efla grænt hagkerfi á Íslandi.

Þetta hefur verið þverpólitísk vinna á öllum stigum málsins, fulltrúar allra flokka voru á upphaflegu tillögunni. Sú tillaga var samþykkt í júnímánuði 2010 og í kjölfarið settust fulltrúar allra þingflokka í nefnd um eflingu græna hagkerfisins sem vann í 12 mánuði að gerð þeirrar tillögu og þeirrar skýrslu sem er efnisinnihald þeirrar þingsályktunartillögu sem við ræðum hér í dag. Sú tillaga var lögð fram af 21 þingmanni úr öllum þingflokkum og ég vil rifja það upp og láta þess getið að það var mjög ánægjuleg vinna sem fór fram í þeirri nefnd. Allir nefndarmennirnir níu lögðu mjög mikilsverðan skerf til niðurstöðunnar og voru fulltrúar stjórnarandstöðunnar sannarlega engir eftirbátar fulltrúa stjórnarmeirihlutans í þeim efnum.

Eðlilega, eins og þegar svona stórt mál er undir, var farið vítt yfir sviðið. Menn voru ekki alltaf sammála um öll smáatriði en nefndin stóð þó einhuga að baki þeim 48 tillögum sem lagðar voru fram í skýrslunni en tveir nefndarmenn gerðu athugasemdir við einstök atriði hennar eins og kemur fram í nefndaráliti um þingsályktunartillöguna.

Ég vil byrja á að fagna því sérstaklega að þessi mikla samstaða, þvert á flokka, hefur haldist í vinnu hv. atvinnuveganefndar við málið og vil ég nota tækifærið og þakka hv. formanni nefndarinnar, Kristjáni L. Möller, fyrir hversu vel og farsællega hann hefur haldið á þessu máli og framgangi þess. Ég vil líka leggja á það áherslu að nefndin hefur ekki aðeins staðið saman um málið heldur greinilega unnið mjög vandað og gott starf við að setja sig vandlega inn í yfirgripsmikið efni tillögunnar, reifað þar álitamál sem vissulega eru til staðar um einstök atriði og lagt til gagnlegar breytingar þar sem þeirra var þörf. Ég vil hrósa nefndinni sérstaklega fyrir það nefndarálit sem liggur eftir þessa vinnu, það er afar vel unnið. Þar er að finna mjög málefnalega umræðu um tiltekin atriði sem einnig voru nefnd og rædd ítarlega í nefndinni um græna hagkerfið, ekki síst um varúðarregluna, inntak hennar og beitingu í framkvæmd, sömuleiðis sjónarmið um grænan samkeppnissjóð og hvort rétt sé að stofna sérstaka deild innan Tækniþróunarsjóðs eða fara aðrar leiðir. Enn fremur eru lagðar fram nýjar tillögur sem lúta í fyrsta lagi að því að breyta tímamörkum einstakra tillagna, í öðru lagi að vinna að framgangi skógræktar og vistheimtar og í þriðja lagi að stuðla að sjálfbærri orkunýtingu í íslenskum landbúnaði. Ég tel sjálfur að þetta séu allt góðar tillögur og sjónarmið sem vel er hægt að taka undir og ætla fara hér í nokkrum orðum um helstu efnisþætti.

Það er hárrétt sem kemur fram í nefndaráliti sem ályktun nefndarinnar að tímasetningar tillagnanna eru atriði sem nefndin leit svo á að færi vel á að lagðar yrðu í dóm fagnefndar Alþingis. Það er vissulega rétt að það voru metnaðarfull áform um að menn mundu vinna þetta hratt og vel og niðurstaða nefndarinnar á lokametrum vinnunnar var að ekki væri rétt að fara kerfisbundið í gegnum hverja og eina tillögu og raða henni í tímaröð sem binda mundi hendur manna fyrir fram. Ég tel að það sé mjög rökrétt niðurstaða nefndarinnar að færa að jafnaði tímamörkin aftur um eitt ár, það er komið fram í mars 2012. Ég tel reyndar að sá tímarammi sem nefndin vann innan sé mjög vel ásættanlegur, þetta er mjög yfirgripsmikið mál og hefði í sjálfu sér ekki verið skrýtið þó að tekið hefði einhver missiri að fara í gegnum málið en ég felli mig mjög vel við þá niðurstöðu nefndarinnar að leggja til ákveðnar breytingar í þessu efni.

Umræðan um varúðarregluna er fyrirferðarmikil í nefndarálitinu og það er eðlilegt. Ég vil rétt fara nokkrum orðum um ástæðu þess að hún er inni í tillögunni. Þetta er eitt af þeim átta stefnumiðum sem nefndin um græna hagkerfið lagði til grundvallar tillögugerðinni, við getum kallað þetta eins konar átta boðorð til að vísa stjórnvöldum veginn við eflingu græna hagkerfisins, og sá skilningur sem nefndin lagði til grundvallar er sá skilningur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa notað og beitt í kjölfar ráðstefnunnar um Ríó-sáttmálann fyrir réttum 20 árum.

Skilningur minn er sá að varúðarreglan snúist á mannamáli fyrst og fremst um það að láta náttúruna njóta vafans. Ef við erum í þeim sporum að líkur eru á því að tilteknar framkvæmdir geti valdið alvarlegum umhverfisspjöllum eigi ekki að líta fram hjá þeim líkum eða beita því fyrir sig að ekki sé til staðar vísindaleg fullvissa um orsakasamhengi, heldur sé rétt við þær aðstæður að taka varúðarsjónarmið alvarlega og freista þess að lágmarka fyrirsjáanlegt umhverfistjón af framkvæmdunum, t.d. með öflugum mótvægisaðgerðum.

Efasemdarmenn um beitingu varúðarreglunnar hafa bent á að ekki megi nota þessa reglu til að stöðva allar framkvæmdir og það er vissulega réttmætt sjónarmið sem þarf að taka tillit til. Þess vegna styð ég þær áherslur sem fram koma í nefndaráliti atvinnuveganefndar þess efnis að beita þurfi varúðarreglunni á málefnalegan hátt og tel farsælt til framtíðar að við reynum að ná saman um það í þinginu að skýra þennan skilning, að ná þeirri stöðu að það verði sameiginlegur skilningur manna á inntaki varúðarreglunnar og sá skilningur verði í kjölfarið lögfestur í íslenskri umhverfislöggjöf.

Það er áberandi í umsögnum umsagnaraðila og kemur vel fram í nefndaráliti nefndarinnar að talsmenn og forvígismenn tiltekinna atvinnugreina hafa bent á að það sé ekki mikið rými í upphaflegu tillögunni um einstakar greinar, t.d. skógræktina, landgræðslu, ferðaþjónustu o.s.frv. Þetta má allt til sanns vegar færa en það var mjög meðvituð afstaða nefndarinnar að vinna hennar ætti ekki að snúast fyrst og fremst um að veita ítarlegt yfirlit yfir grænar atvinnugreinar á Íslandi eða tæmandi úttekt á þeim, heldur benda á leiðir til þess að gera íslenskt atvinnulíf í grundvallaratriðum umhverfisvænna með hvetjandi aðgerðum ekki síst, með hagrænum hvötum. Síðan eru nefndar í skýrslunni í dæmaskyni nokkrar leiðir sem hægt sé að fara í þeim efnum en ekki ber að líta á það að neinu leyti sem einhvers konar tæmandi yfirlit.

Ég get mjög vel tekið undir þau sjónarmið sem koma fram til dæmis um skógræktina. Að sjálfsögðu er skógrækt græn atvinnugrein á Íslandi og það kemur einmitt fram í skilgreiningu þeirri sem við notumst við á grænum störfum að sjálfbær skógrækt er þar sérstaklega nefnd til sögunnar.

Taka má undir það sem kemur fram í nefndarálitinu um kolefnisgjaldið. Það ræðst af þeim tímasetningum að tillagan var endanlega mótuð í septembermánuði sl. og lögð fram áður en fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram þar sem kom fram tillaga um hækkun á kolefnisgjaldinu þannig að sú aðgerð hefur að einhverju leyti þegar átt sér stað. Reyndar má harma það að ekki er farin sú leið sem nefndin um græna hagkerfið lagði til, þ.e. að tekjum af hækkuninni yrði varið til þess að efla orkuskipti í samgöngum en segja má að sú barátta standi enn yfir.

Ég ætla ekki í sjálfu sér að fara ítarlegar yfir efni þessa nefndarálits, það hefur formaður nefndarinnar gert prýðilega sjálfur, en rétt nefna þó í lokin að núna þegar málið er komið út úr nefnd og til meðferðar í þinginu má segja að næsta tímabil hefjist ef tillagan verður samþykkt við atkvæðagreiðslu að lokinni þessari umræðu. Þá er næsta verkefni að skoða hvernig raða megi þessari aðgerðaáætlun í forgang. Þarna eru 48 tillögur og mikilvægt að menn taki strax til við að greina hvaða tillögur geta skipt mestu máli við að koma til dæmis auknum krafti í atvinnulífið á Íslandi. Þar eru nokkrar tillögur sem ég vil sérstaklega benda á.

Ein af þeim, sem kannski mestan undirbúning hefur fengið, er tillagan um að efnt verði til fimm ára átaks í að efla grænar erlendar fjárfestingar í landinu. Þetta er það svið sem við þurfum að einbeita okkur hvað mest að í að styrkja hér, fjárfestingar á Íslandi erlendis frá hafa reyndar í gegnum söguna verið allt of litlar, í hreinu lágmarki, og á undanförnum áratugum fyrst og fremst í einni atvinnugrein, þ.e. stóriðjunni. Hér eru hins vegar mjög mikil tækifæri á ferðinni í grænni fjárfestingu og við sjáum þegar merki þess að ákveðnir sprotar eru þar að kvikna, t.d. varðandi gagnaverin sem eru komin inn í íslenskt atvinnulíf og vonandi til að vera. Þar gera menn sér vonir um að um leið og fyrst stóra gagnaverið hefur tekið til starfa, sem núna hefur gerst á undanförnum fáum vikum, muni fleiri slík fylgja í kjölfarið.

Ég get upplýst hér að á vegum Íslandsstofu hefur þegar verið lagt í mikinn undirbúning við að undirbúa slíkt fimm ára átak um að efla græna fjárfestingu og það kallar á að valin verði tiltekin áherslusvið, þrjú til fimm svið, sem við munum sérstaklega einbeita okkur að. Gagnaverin hafa þar komið til umræðu. Menn hafa sömuleiðis nefnt innlenda framleiðslu á vistvænu eldsneyti, vatnsútflutning og ýmislegt fleira mætti nefna. Það er líka spennandi svið sem margir hafa nefnt sem er frekari fullvinnsla á málmum eins og kísilmálmi. Eitt af þessum grænu verkefnum snýst um hreinsun á kísilmálmi til notkunar í sólarorkuiðnaðinum. Þetta er umhverfisvænn iðnaður og væri óskandi að það fyndist orka hér í landinu til að knýja slíka starfsemi en erlendir aðilar hafa þegar sett sig í samband við fjárfestingarsvið Íslandsstofu til þess að vinna því verkefni brautargengi.

Segja má að nokkrar af þeim tillögum sem nefndar eru í skýrslu nefndarinnar um græna hagkerfið séu þegar komnar á ákveðinn rekspöl. Ég nefndi verkefni um erlenda fjárfestingu, þar er undirbúningur hafinn og reyndar þegar byrjað að vinna í að skilgreina þau áherslusvið sem eiga að vera þar til grundvallar. Ég sé fyrir mér að við förum út úr þeim fasa að vera ef svo má segja „reaktíf“ í stefnumótun okkar varðandi erlenda fjárfestingu, þ.e. að svara fyrst og fremst þeim beiðnum sem okkur berast um til dæmis ívilnanir vegna fjárfestinga yfir í það að móta okkur stefnu um hvar við viljum helst staðsetja okkur þegar kemur að slíkri fjárfestingu. Ég held að umhverfisvænn iðnaður sé þar fremst í flokki.

Sömuleiðis er komin á rekspöl tillaga 11 í skjalinu um vistvæn innkaup. Þegar hefur verið tryggt aukið fjármagn í fjárlögum þessa árs til stýrihópsins sem hefur með vistvæn innkaup að gera. Þetta er kannski mikilvægasta tækið sem ríkið hefur til þess að ganga fram fyrir skjöldu og vera til fyrirmyndar í að innleiða grænt hagkerfi því að kaupmáttur ríkisins varðandi innkaup á vörum og þjónustu er klárlega sá mesti sem einn aðili í okkar samfélagi hefur. Það fara 100 milljarðar á ári frá ríkinu í að kaupa ýmiss konar vöru og þjónustu og önnur eins upphæð frá sveitarfélögunum og öll þau skref sem eru stigin til þess að örva framleiðslu og sölu á grænum varningi og þjónustu í landinu geta hér haft úrslitaþýðingu.

Sömuleiðis er tillaga 15 um langtímasamning um eflingu Grænfánaverkefnisins sem lýtur að hugarfarsbreytingu og fræðslu til barna og ungmenna í skólum landsins. Það verkefni er komið vel á veg með samningi sem umhverfisráðuneytið og menntamálaráðuneytið undirrituðu í lok síðasta árs við Landvernd sem hefur haldið utan um það verkefni.

Ég læt þetta duga af mínum viðbrögðum við þessu prýðilega nefndaráliti sem kemur frá atvinnuveganefnd og ítreka þakkir mínar til formanns nefndarinnar og nefndarinnar allrar fyrir afbragðs vinnu. Það er mikið fagnaðarefni að þetta mál hafi komið út úr nefndinni með þeim hætti sem hér ber vitni um.