140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[12:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir að hefja vinnu við þetta og það verklag sem hann viðhafði og varð kannski til þess að 21 þingmaður var á málinu upphaflega. Síðan var nefnd skipuð af fulltrúum úr öllum flokkum sem vann upphaflegu þingsályktunartillöguna og er kannski skýringin á því að það náðist víðtækari samstaða um þetta mál en menn höfðu haldið fyrir fram. Það er því miður ekki raunin um mörg mál að samstaða náist um þau hér, sem hefði kannski verið hægt ef menn hefðu sest niður upphaflega og áttað sig á því að verið væri að fara í langtímastefnumótun.

Ég þakka líka kærlega hv. þingmanni og formanni atvinnuveganefndar, Kristjáni L. Möller, og nefndinni fyrir mjög gott samstarf um þetta og eins ritara nefndarinnar fyrir frábæra vinnu. Eins og komið hefur fram bæði í framsögu hv. þm. Kristjáns L. Möllers og Skúla Helgasonar er þetta mjög viðamikið plagg, tekur á mörgum þáttum, og fór nefndin ítarlega yfir málið. Það komu margar umsagnir og við fengum marga gesti.

Það sem mér fannst almennt athugavert við þingsályktunartillöguna þegar hún kom fram voru þær umsagnir sem komu frá umhverfisdeild Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri þess efnis að það vantaði í raun og veru allt í plaggið sem snertir íslenskar aðstæður, það væri meira miðað við Miðvestur-Evrópu og ástandið þar. Með því að setja meiri fókus á skógrækt og landgræðslu visttengt á landbúnaðarkaflann, sem okkur fannst skorta á, og fjalla um það held ég að við í atvinnuveganefnd höfum tekið talsvert tillit til þeirra athugasemda sem komu meðal annars fram hjá umhverfisdeild landbúnaðarháskólans.

Eins og fram hefur komið leggur nefndin þetta öll fram en sá sem hér stendur er með fyrirvara á því. Þeir eru meira og minna almennir. Í sjálfu sér hefði verið hægt að skrifa fyrirvaralaust upp á tillöguna eins og hún kom frá nefndinni af því að þar var búið að vinna talsvert með t.d. varúðarregluna. Engu að síður, þar sem við höfðum lagt þetta mikla vinnu í málið, fannst mér eðlilegt að koma fram með þær athugasemdir sem ég gerði í þessum fyrirvörum.

Ég ætla ekki að bæta við umræðuna sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Kristján L. Möller, er búinn að fara ítarlega yfir. Ég ætla þó að nefna nokkra fyrirvara sem ég legg fram; þeir eru fimm og frekar almennir. Það væri auðvitað hægt að fara dýpra ofan í þá og vera með einstaka athugasemdir við greinarnar en ég tel að í þessu plaggi í heild sinni séu fólgin fjölmörg tækifæri og að tillagan sé í raun fyrsta skrefið.

Það má til dæmis taka heilmikla umræðu um tímasetningar og hvenær eigi að hefja og hvort hægt sé að hefja framkvæmd allra þessara 48 tillagna nánast á einu ári, einstaka á tveimur kannski, eða hvort leggja eigi meiri vinnu í það og velta fyrir okkur hvað sé raunhæft. Þegar verkefnið fer til stjórnsýslunnar verður auðvitað hægt að raða og forgangsraða upp á nýtt þar.

Fyrirvari sem ég set til dæmis við 6. og 7. töluliði tillögunnar fjallar um svokallaðan framfarastuðul, eða GPI-mælingar. Eins og bent hefur verið á með kostnaðar- og ábatagreiningar er aðferðafræðin ekki fyrir hendi og kannski hefði átt að leggja frekar vinnu í að hún kæmi fram áður en menn færu að reyna að setja þessa mælikvarða og þá hvernig við ætluðum að mæla árangurinn. Eins er spurning með kostnaðar- og ábatagreininguna hvort það sé raunsætt við núverandi aðstæður, þegar þingið og stjórnsýslan — það kemur fram í þessu plaggi að fjármálaráðuneytið treystir sér ekki til að kostnaðarmeta þessa þingsályktunartillögu, að setja slíkar kröfur á framkvæmdarvaldið og hvort þær séu ekki fullíþyngjandi við núverandi aðstæður. Kannski mætti setja meiri kraft og vinnu í að útfæra aðferðafræðina og þá möguleika hvernig við ætlum að mæla framfarastuðlana.

Varðandi liði 33 og 34, um lífrænt vottaðar vörur, fjallaði nefndin ítarlega um málið og benti á að kannski væri ein af ástæðum þess að lífrænt vottuð vara er um 1% á Íslandi af heildarlandbúnaðarframleiðslu einfaldlega sú að hefðbundinn íslenskur landbúnaður er á allt öðrum basis en t.d. landbúnaður í Miðvestur-Evrópu, sem ég talaði um upphaflega, og víða í hinum iðnvæddu ríkjum. Við erum að tala um vistvænan landbúnað hér sem framleiðir vörur sem eru á margan hátt fyllilega jafngóðar og heilnæmar og þær lífrænu og að hreinlega sé minni hvati að fara þá leið. Engu að síður er sjálfsagt mál fyrir þann hóp sem hefur þá lífsskoðun að velja lífrænar vörur að auka þann möguleika. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að á næstu átta árum verði hægt að fimmtánfalda þá framleiðslu vegna þess einfaldlega að eftirspurnin verði ekki fyrir hendi því að ekki sé mikill hvati til að fara í þá framleiðslu. Landbúnaðarland á Íslandi er næringarsnautt og hrópar á áburðarefni og til að lífræn framleiðsla geti þrifist þarf jafnframt að auka hinn lífræna áburð. Í tillögu 35 er fjallað um að það þurfi að kostnaðar- og ábatameta og reyna að auka hinn lífræna áburð. Eins er í 39. gr. fjallað um að auka endurvinnslu á úrgangi til að menn geti nýtt úrganginn sem áburð. Það eru margir að prófa það í dag með því að nota slóg og jafnvel seyru og annað og þá rekast menn endalaust á hindranir, reglur og eftirlitsaðila sem gerir að verkum að ég er mjög efins um að þetta gangi svona hratt eftir, en ég tek undir að það þarf að skoða þessa tvo þætti ítarlega.

Varðandi þá athugasemd sem ég gerði við 36. og 37. töluliði tillögunnar, er fjalla aðallega um orkuskipti í skipaflotanum, er talað um að stefna að því að endurgreiða um 20% þegar menn fara í endurnýjanlega orkugjafa, einnig að setja upp sérstakt mengunarsvæði, þá efast ég um að það sé raunhæft við þessar aðstæður að stefna á þetta með slíkum hraða. Að vísu hafa komið mjög áhugaverðar tillögur á vegum Siglingastofnunar undir stjórn Jóns Bernódussonar um að auka repjurækt á Íslandi og framleiða hugsanlega lífdísil fyrir allan skipaflotann. Það er spennandi að taka þátt í því og ég held að tillagan geti þar af leiðandi hvatt til þess, og aðrar tillögur, en það að við getum sett okkur markmið sem við ætlum síðan að mæla er ég meira efins um.

Síðasta athugasemd mín varðandi Auðlindasjóð er almennur fyrirvari um að skynsamlegt sé að stofna sérstakan auðlindasjóð eða ríkissjóð sem þessir peningar renni til. Ég legg áherslu á að sú gjaldtaka sem verður á auðlindum, og ég tel eðlilega, renni að miklu leyti beint til þeirra svæða þar sem auðlindin er og þar sem atvinnusköpunin verður. Ef við setjum upp slíkt kerfi hefur það miklu jákvæðari afleiðingar en hitt.

Að lokum ítreka ég nokkrar setningar sem ég var með varðandi varúðarregluna. Á sama hátt og á við um kostnaðarmats- og ábatagreininguna skiptir máli hvernig varúðarreglan er túlkuð og með hana farið. Ef við stígum varlega til jarðar og skynsamlega þá þurfum við svo sem ekki að óttast, en ég tel rétt að hafa fyrirvara á þessu.

Með þessum orðum lýk ég máli mínu. Ég tel að búið sé að vinna gott og göfugt starf sem muni verða til sóknar fyrir Ísland svo fremi við nýtum það á jákvæðan hátt en hengjum okkur ekki í öfgar eða afturhald.