140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni að standa hér og taka þátt í síðari umræðu um þingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins hér á landi. Þetta mál á sér nokkra forsögu, eins og rakið hefur verið í dag, og rekur upphaf sitt til samþykktar í samstarfssamningi ríkisstjórnarflokkanna um að þetta mál mundi fá framgang. Fyrst var skipuð nefnd allra flokka sem skilaði af sér viðamikilli skýrslu. Á grundvelli hennar var svo gengið frá þingsályktunartillögu sem hefur nú fengið umfjöllun í nefnd þingsins.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að forsætisráðherra stýri mótun aðgerðaáætlunar um grænt hagkerfi á grundvelli þeirra tillagna sem eiga sér forsögu í þessari nefnd. Að auki er talað um ályktunartillögu átta stefnumótunaratriða sem lagt er til að verði lögð til grundvallar í aðgerðaáætluninni og svo 48 einstakra tillagna. Það má eiginlega segja, og þar vil ég taka undir með atvinnuveganefnd sem stendur öll að baki þessari tillögu, að þessi tillaga stefni að aukinni verðmætasköpun samfara því sem dregið verður úr álagi á náttúruna. Þannig verði komið upp grænu hagkerfi sem byggir á virðingu fyrir náttúrunni og gæðum hennar með hliðsjón af hagsmunum komandi kynslóða, auk þess að svara kröfunni um jafnræði og jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda.

Það má eiginlega segja að hér sé verið að tengja saman áherslur í umhverfismálum og áherslur í atvinnuuppbyggingu en maður hlýtur að staldra við það sem ég álít vera næsta skref í málinu, þ.e. að styðja betur við þessa aðgerðaáætlun með fjárstuðningi til að hægt sé að stíga afmarkaðri og stærri skref í þessa átt. Að mínu viti munu þau fjárframlög skila sér margfalt til baka með tíð og tíma.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2012 er aðeins um 3,1 millj. kr. sett í þetta verkefni og við hljótum að horfa til þess að í fjárlögum ársins 2013 verði gert umfangsmikið betur og það sé þá í takt við þá pólitísku forustu sem þarf að taka í málinu núna.

Ég ætla að tæpa á einhverjum atriðum í áliti atvinnuveganefndar, sem ég er ánægður með að nefndin hefur tekið upp og styrkt þannig það heildarplagg sem kom frá sameiginlegri nefnd um græna hagkerfið.

Hér er til dæmis fjallað nokkuð um skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis og áherslur sem fram hafa komið í þeim efnum eru kannski styrktar. Aðeins er fjallað um varúðarregluna og ég held að því meiri umræðu sem við tökum um hana þeim mun betra. Hún er óaðskiljanlegur hluti af efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda en inntak hennar er eilítið á reiki og menn eru ekki alveg sammála um hversu djúpt í árinni beri að taka hvað hana snertir. Helsta inntak hennar er, eins og fram kemur í nefndarálitinu, að skorti á vísindalega fullvissu þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skuli þeim upplýsingaskorti ekki beitt sem rökum til þess að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Sé fyrir hendi vísindaleg óvissa um afleiðingar aðgerða fyrir umhverfið skuli náttúran njóta vafans. En í umfjöllun nefndarinnar kemur fram að skoðun hennar hafi leitt í ljós að þrátt fyrir að varúðarreglan virðist með hverju árinu sem líður öðlast meira vægi, bæði lagalegt og vægi er kemur að stefnumótun, virðist skilningur manna á inntaki hennar ekki alltaf vera sá sami. Hvetur nefndin til dýpri umræðu um hlutverk hennar og er það vel.

Ég vil einnig staldra við umfjöllun um hækkun kolefnisgjalds á eldsneyti og þá sérstaklega taka upp þann punkt sem Fjórðungssamband Vestfirðinga vakti athygli á í meðförum nefndarinnar, þ.e. að aðgengi að vistvænum orkugjöfum sé eingöngu til staðar á höfuðborgarsvæðinu og því sé það allsendis óljóst hvenær og hvernig slíkir orkugjafar verði aðgengilegir íbúum landsbyggðarinnar. Þetta er að sjálfsögðu veigamikið atriði sem þarf að hafa í huga og þannig þurfum við að horfa til þess með hvaða hætti við viljum sjá skattalega hvata í hagkerfinu stuðla að umhverfisvernd, hvernig þeir birtast þá íbúum landsbyggðarinnar sem hafa kannski ekki um jafnmarga kosti að velja. Þetta þarf að hafa í huga og mér finnst þetta góð ábending hjá Fjórðungssambandinu og tek undir þau sjónarmið sem þar eru reifuð, sem sagt að við ráðstöfun fjármuna sem innheimtast með skattlagningu á jarðefnaeldsneyti verði horft til mismunandi stöðu íbúa landsins.

Þá er eilítið tæpt á möguleikum eða hlutverki ferðaþjónustu í þessu nefndaráliti. Ég er ánægður með það frumkvæði nefndarinnar. Hún tekur undir umsögn Landbúnaðarháskólans um að viðurkenna þurfi mikilvægi ferðaþjónustu í íslensku hagkerfi og efla þróun og nýsköpun á því sviði og í því tilliti þurfi meðal annars að líta til þess að ferðaþjónusta sé oft og tíðum valkostur til að þróa byggð frá framleiðsluháttum sem brjóta í bága við umhverfisvernd. Umhverfisráðuneytið tekur undir þetta sjónarmið í umsögn sinni og segir að ferðaþjónusta þurfi að fá meiri athygli og brýnt sé að gæta að náttúruvernd þar sem of mikill ágangur ferðamanna geti valdið skaða á náttúrunni en aukin náttúruvernd geti aftur á móti aukið þolmörk ferðamannastaða. Þá hvetur ráðuneytið til þess að aðgerðir á sviði eflingar stoðkerfis grænnar atvinnustarfsemi taki fullt tillit til ferðaþjónustunnar.

Þá leggur Landvernd til, í sinni umsögn, að brugðist verði við álagi á ferðamannastaði og auðlindir með því að veita fé til eflingar innviða fjölfarinna ferðamannasvæða. Það hefur reyndar verið gert að einhverju marki þó að eflaust megi stíga fastar niður á því sviði að efla innviði fjölfarinna staða en ég held hins vegar að Alþingi, þingmenn og hagsmunaaðilar, ættu frekar að dýpka þessa umræðu hvað snertir samsvið ferðaþjónustu og umhverfisverndar og reyndar stöðu ferðaþjónustunnar heilt yfir sem atvinnugreinar í þessu landi. Þetta er atvinnugrein í mikilli sókn og með miklum vaxtarmöguleika en hins vegar komum við aftur og aftur að því að rannsóknir eru mjög litlar innan þessa geira. Við vitum mjög takmarkað um þá vöru sem við erum að selja á þann markað sem við erum að selja til. Ef við viljum að ferðaþjónustan verði alvöruatvinnugrein, ef við ætlum að byggja stóran hluta af hagkerfi okkar á ferðaþjónustu, þurfum við að auka skilning okkar á henni og hvernig við eigum að haga samspili aukinnar ferðaþjónustu við náttúruna en náttúran er fyrst og fremst aðalsölutæki okkar til að laða hingað til lands ferðamenn. Ég vil óska atvinnuveganefnd heilt yfir til hamingju með þessa umfjöllun nefndarinnar. Hún er vel gerð, þetta er vandað plagg sem nefndin er að skila frá sér og ánægjulegt að sjá að þvert á flokka vilja menn stuðla að uppbyggingu græns hagkerfis enda er það ljóst að aukin eftirspurn eftir umhverfisvænum og grænum vörum á sér stað í heiminum og mikil sóknarfæri felast í aukinni grænni áherslu hér á landi. Það er alveg ljóst að Ísland og íslenskar afurðir hafa ímynd hreinleika og við aukna vitund um stöðu umhverfismála heilt yfir eykst virði þeirra ímynda sem vörurnar eiga. Þannig má segja að við Íslendingar séum í óskastöðu í samkeppnisumhverfi framtíðarinnar.

Við erum vel í stakk búin til að takast á við þau mörgu erfiðu viðfangsefni sem þjóðir heims glíma við á leið sinni til verndunar umhverfis en fyrir Ísland eru þessar áskoranir hins vegar gríðarlegt tækifæri til að auka lífsgæði og velmegun til lengri tíma litið. Hjá öðrum þjóðum eru auknar kröfur um náttúruvernd, minni mengun og bætta umgengni næsta óleysanlegar áskoranir en fyrir Íslendinga gefast fjölmörg sóknarfæri á þessu sviði. Þannig er mikilvægt að við hugsum áherslur okkar í umhverfismálum í beinum tengslum við áherslur okkar í atvinnumálum, það skiptir ekki bara máli hvað snertir ferðaþjónustu hvernig við göngum um umhverfið og hvaða áherslu við leggjum í atvinnuuppbyggingu okkar. Ég tel að áhersla á umhverfisvæna þætti, eins og hér birtast í þingsályktunartillögu um grænt hagkerfi, hafi ekki síður mikil áhrif á hinar hefðbundnu vörur sem frá Íslandi fara og seljast, hvort sem það eru matvæli eða aðrar vörur sem tengjast tísku, hönnun o.s.frv. Ímynd landsins skiptir miklu máli í þessu sambandi og það allra besta sem við getum gert fyrir íslenska atvinnuvegi er að varðveita þá ímynd hreinnar náttúru og hreinleika.

Hins vegar verður það að segjast eins og er, virðulegi forseti, að umræða um umhverfismál hefur ekki kannski náð að þroskast með nægilega góðum hætti hér á landi. Hún hefur að miklu leyti snúist um virkjanir á hálendi Íslands og þar hefur fólki verið skipt upp í tvo hópa, virkjunarsinna og verndunarsinna, og oft og tíðum hefur skort skilning á málflutningi ólíkra aðila. Þannig hafa röksemdir verndunarsinna til dæmis verið sagðar bera vott um fagrar tilfinningar en ekki mikla praktík og ekki nógu mikilvægar til að eiga heima í umræðu um hagvöxt, arðsemi eða fjölgun starfa.

Ég held að það sé líka mikilvægt fyrir þingmenn að dýpka umræðuna og fjarlægja umhverfismál frá hefðbundinni hægri/vinstri skilgreiningu stjórnmálanna. Vinstri menn hafa hingað til verið í fararbroddi umhverfismála á Íslandi og unnið mikilvægt verk en nú tel ég að kominn sé tími til að aðrir flokkar taki þessi mál upp og sýni það í verki í stefnumótun sinni og áherslum, sem þeir leggja fram í þessum þingsal, að umhverfismál eiga ekki að vera einkaatriði eða einkahagsmunir vinstri manna.

Það hversu nátengdir hagsmunir náttúruverndar og nýja atvinnulífsins eru sýnir það vel að hægri menn, samkvæmt hefðbundinni hægri/vinstri skilgreiningu, ættu sömuleiðis að berjast hatrammlega fyrir verndun náttúrunnar því að að mínu mati eru samkeppnislausnir við útblástur gróðurhúsalofttegunda, og hvernig grænn vöxtur er talinn leysa atvinnumál framtíðarinnar, dæmi um að hægri menn ættu ekki síður að vera þenkjandi á sviði umhverfismála en vinstri menn. Að mörgu leyti fara umhverfissjónarmið og áherslur vinstri manna um afskipti ríkisins einmitt mjög illa saman. Hefðbundin nálgun hægri manna á markaðslausnir á að mörgu leyti miklu betri möguleika á að leysa viðfangsefni umhverfisverndar. Þess vegna er mikilvægt fyrir þingmenn alla, og þá kannski sérstaklega jafnaðarmenn að mínu viti, að taka forustu í þessum málum. Við eigum að nálgast þessa umræðu út frá sjónarmiði verðmætasköpunar. Við eigum öll að skilja mikilvægi umhverfisverndar fyrir nútímaatvinnulíf og átta okkur um leið á gildi markaðslausna til að takast á við vandamál umhverfisins.

Þeir sem hafa talað um mikilvægi stefnu eða aðgerða í umhverfismálum hafa hingað til á Íslandi allt of oft verið málaðir andstæðingar uppbyggingar í atvinnulífi og hafa verið kaffærðir í tölum um aukinn hagvöxt, fjölgun starfa og aukin útflutningsverðmæti. En stuðningsmenn umhverfisverndar eiga að standa keikir og nota tungumál sem atvinnulífið skilur því að aukin áhersla á umhverfisvernd og ímynd hreinleika á Íslandi mun auka útflutningsverðmæti, fjölga störfum og auka hagvöxt eins og áherslur um uppbyggingu græns hagkerfis sýna vel.

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög því frumkvæði sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar sýndi strax í upphafi, undir forustu hv. þm. Skúla Helgasonar, sem hefur leitt þetta mál alveg frá upphafi með því að halda utan um þá nefnd sem lagði til þær tillögur sem atvinnuveganefnd hefur fjallað um, tekið til umfjöllunar og birtast í þessari þingsályktunartillögu sem ég vona að verði samþykkt á Alþingi í næstu viku. Ég vona að við sjáum svo ríkisstjórn jafnaðarmanna taka pólitíska forustu um að hrinda þessum tillögum í framkvæmd.