140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

Það fer vel á því á þessum degi, 15. mars, sem er alþjóðlegur dagur neytendaréttar að við ræðum þetta mál, en í dag eru einmitt 50 ár síðan John F. Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseti, kynnti fjórar meginkröfur um grundvallarréttindi neytenda í ræðu sem hann hélt á bandaríska þinginu. Þá sagði Kennedy, með leyfi forseta:

„Samkvæmt skilgreiningu erum við öll neytendur. Um er að ræða stærsta hópinn sem hefur áhrif og verður fyrir áhrifum af næstum öllum efnahagslegum ákvörðunum sem stjórnvöld og einkafyrirtæki taka en samt er þetta eini mikilvægi hópurinn sem ekki er hlustað á.“

Þetta var í fyrsta sinn sem stjórnmálamaður með alþjóðlega vigt setti formlega fram kröfu til handa neytendum. Þessi yfirlýsing leiddi að lokum til þess að Sameinuðu þjóðirnar og einstakar aðildarþjóðir þeirra samþykktu á allsherjarþinginu árið 1985 sérstakar leiðbeiningar um neytendavernd. Í þeim var meðal annars kveðið á um að allur almenningur án tillits til tekna eða félagslegrar stöðu hefði ákveðin lágmarksréttindi sem neytendur.

Óhætt er að segja að hrun fjármálakerfisins á Íslandi og afleiðingar þess hafi varpað ljósi á veika stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum hér á landi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að starfshættir stjórnenda fjármálafyrirtækja á Íslandi í aðdraganda hrunsins voru á stundum langt frá því að geta talist til eðlilegra eða heilbrigðra viðskiptahátta og á köflum var framferði manna ólögmætt eins og dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán bera glöggt vitni um. Af þessum ástæðum og vegna almenns skuldavanda í kjölfar hrunsins ríkir almenn óánægja og vantraust í garð fjármálastofnana hér á landi. Við þessu er nauðsynlegt að bregðast og tilgangur tillögunnar er ekki síst að styrkja stöðu neytenda á fjármálamarkaði þannig að hún verði til jafns við það sem við þekkjum í nágrannalöndunum.

Ég held það sé morgunljóst að réttur neytenda hefur ekki verið virtur sem skyldi á fjármálamarkaði hér á landi undanfarna áratugi. Nægir þar að horfa til þeirrar þungu greiðslubyrði sem fylgt hefur verðtryggingu lánaskuldbindinga og háum vöxtum í alþjóðlegum samanburði. Auðvitað verður sú umræða ekki skilin frá umræðu um peningamálastefnu og viðkvæma stöðu íslensku krónunnar sem hefur verið undirorpin miklum sveiflum sem hafa komið illa við pyngju heimila með neytendalán.

Fyrrnefndir dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán hafa síðan dregið enn frekar fram hve neytendur hafa haft veika stöðu gagnvart fjármálafyrirtækjunum og ég held að það sé einhver mikilvægasti lærdómur nýfallins dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar að við hér í þinginu þurfum að taka okkur á og standa dyggari vörð um rétt neytenda á fjármálamarkaði hér eftir en hingað til. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa yfir að ráða sérfræðikunnáttu, mannafla og fjárhagslegum styrk sem veitir þeim yfirburðastöðu gagnvart neytendum og því er mikilvægt að stjórnvöld gangi fram fyrir skjöldu og standi vörð um rétt neytenda.

Þessi tillaga til þingsályktunar er því afar tímabær. Ég tel afar brýnt að koma strax af stað þeirri vinnu sem hún kveður á um, sem er að skipa nefnd sem geri úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setji fram tillögur um hvernig styrkja megi stöðu neytenda í þessu efni og ekki síst að skipa málum með þeim hætti að neytendur hafi skýra og einfalda leið að þeim aðila innan stjórnkerfisins sem ber ábyrgð á þessum málaflokki.

Neytendamál hafa yfirleitt ekki verið í forgrunni íslenskra stjórnmála en þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, lét sig þau sérstaklega varða og hafði forgöngu um að þrjár háskólastofnanir gerðu úttekt á stöðu neytendamála frá mismunandi sjónarhornum. Niðurstöður voru kynntar í apríl 2008 í skýrslunni Ný sókn í neytendamálum. Þar var meðal annars að finna gagnlegar tillögur um skipan neytendamála innan Stjórnarráðsins þar sem lagt var til í skýrslu Lagastofnunar Háskólans og Hagfræðistofnunar að sett yrði á fót ný sameinuð stofnun á sviði neytendaréttar og eftirlit með vernd neytendaréttar af hálfu stjórnvalda. Sú tillaga endurómar í sjónarmiðum umsagnaraðila tillöguna sem benda margir á að núverandi skipan neytendaverndar á fjármálamarkaði sé með þeim hætti að margar ólíkar stofnanir hafi með höndum skyldur í þessu efni sem geri skipulag málaflokksins óþarflega flókið og þjónustu við neytendur ómarkvissa.

Neytendavernd á fjármálamarkaði er nú falin stofnunum eða nefndum sem heyra undir nokkur ráðuneyti. Neytendastofa og talsmaður neytenda heyra undir innanríkisráðuneyti, Fjármálaeftirlitið og eftirlitsnefnd með framkvæmd sérstakrar skuldaaðlögunar heyrir undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti og umboðsmaður skuldara undir velferðarráðuneyti. Sumar stofnanir eða nefndir fara með verkefni sem eru tímabundin og fullt tilefni er til að fara yfir þennan málaflokk með það að markmiði að sameina þau verkefni er lúta að vernd neytenda á fjármálamarkaði og marka heildræna stefnu á þessu mikilvæga sviði á einni hendi. Meiri hlutinn telur brýnt að sameina á einni hendi stjórnsýslulega ábyrgð á neytendavernd á fjármálamarkaði þannig að neytendur geti sótt þjónustu og ráðgjöf á einum stað.

Mikilvægt er að það sé skýrt fyrir neytendum hvert þeir geti leitað og sömuleiðis er mikilvægt fyrir eftirlitsstofnanir að valdmörk séu skýr. Með þingsályktunartillögu þessari gefst tækifæri til að fara yfir verkaskiptingu opinberra aðila með tillit til neytendaverndar á fjármálamarkaði og móta skýrar tillögur um hvernig megi styrkja stöðu neytenda gagnvart aðilum á þeim markaði sem bjóða neytendum þjónustu sína. Meiri hlutinn áréttar í þessu sambandi að mikilvægt er að búa svo um hnútana að sú stofnun sem fer með neytendavernd á fjármálamarkaði hafi skýra frumkvæðisskyldu varðandi mat á mismunandi tegundum neytendalána og annarri þjónustu á fjármálamarkaði sem snýr að einstaklingum.

Virðulegi forseti. Það er rakið nokkuð ítarlega í nefndarálitinu hvaða löggjöf hefur verið sett á þessu sviði frá árinu 2008. Má þar nefna ný lög um neytendalán frá því ári þar sem meðal annars voru lögfest ákvæði um aukinn rétt neytenda og takmarkanir á ýmiss konar gjaldtöku fjármálastofnana, auk þess sem ríkari upplýsingaskylda var lögð á lánveitendur um breytingar á gjaldskrá. Þessi lög þykja um margt vönduð en hins vegar má færa fyrir því gild rök að eftirliti með framkvæmd þeirra hafi í grundvallaratriðum verið ábótavant og má að verulegu leyti rekja það til þeirrar flóknu og ómarkvissu stjórnsýslu sem ég nefndi áðan. Þá má nefna lög um greiðsluaðlögun, innheimtulög og lög um ábyrgðarmenn, breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki þar sem skerpt var á ákvæðum um hegðun fjármálafyrirtækja gagnvart viðskiptamönnum, lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði o.s.frv.

Loks má nefna að von er á nýju frumvarpi á yfirstandandi þingi um breytingar á lögum um neytendalán sem meðal annars felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 48 frá 2008 um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins nr. 102 frá 1987. Tilgangurinn með setningu tilskipunarinnar var að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi um slík lán, auk þess að stuðla að aukinni neytendavitund um lánskjör og gera neytendum betur kleift að bera saman ólíka lánasamninga. Frumvarpið hefur meðal annars að geyma ákvæði er fela í sér auknar kröfur um upplýsingaskyldu lánveitenda, mat á lánshæfi lántakenda og skyldur lánamiðlara, auk ákvæða um rétt neytenda til að beita úrræðum gegn lánveitanda vegna vanefnda samnings.

Virðulegi forseti. Í október 2009 var lögum um Stjórnarráð Íslands meðal annars breytt í þá veru að málefni Neytendastofu og talsmanns neytenda fluttust frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis sem nú heitir innanríkisráðuneyti. Talið er að endurskipulagningu neytendamála sé ekki lokið með þessari yfirfærslu, m.a. þar sem fjölmargir lagabálkar sem varða neytendamál falla undir ábyrgðarsvið annarra ráðherra, einkum efnahags- og viðskiptaráðherra. Um þessar mundir hefur starfshópur í innanríkisráðuneyti það verkefni að fara yfir skipulagningu neytendamála með það að markmiði að stuðla að hagkvæmu, skilvirku og öflugu neytendastarfi hér á landi þar sem verkaskipting sé skýr, boðleiðir eins stuttar og mögulegt er og verkefni og aðföng fylgi ábyrgðarsviði stofnana.

Rætt var í nefndinni hvort fela ætti þessum starfshópi viðfangsefni þeirrar tillögu sem við ræðum hér, en þar sem sá hópur hefur ekki sett sér það verkefni að fjalla sérstaklega um neytendavernd á fjármálamarkaði og brýnt er að setja þá vinnu strax í gang var það niðurstaðan að markvissara væri og líklegra til skjótrar úrlausnar að fela sérstakri nefnd það verkefni. Ég árétta þó að mikilvægt er að sú nefnd sem rætt er um í þessari tillögu hafi gott samráð við starfshóp innanríkisráðuneytis til að tryggja samræmingu við þær áherslur og þá vinnu sem þar er unnin.

Bent var á í umsögn um málið að óheppilegt sé að afmarka tillöguna við stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum þar sem markmið hennar ætti væntanlega að vera að styrkja stöðu neytenda almennt á fjármálamarkaði. Fjármálafyrirtæki eru samkvæmt lögum ein tegund fyrirtækja á fjármálamarkaði, samanber 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, en þar er kveðið á um að fjármálafyrirtæki geti fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun eða rekstrarfélag verðbréfasjóðs. Bent var á við umfjöllun um málið að líta þyrfti á málið heildstæðari augum en svo að horfa fyrst og fremst á stöðu skuldara, enda væru viðskiptavinir fyrirtækja á fjármálamarkaði fleiri en þeir sem skulduðu þeim. Viðskipti neytenda við þá sem veita þjónustu á fjármálasviði heyra undir margs konar löggjöf sem einkum heyrir undir málefnasvið efnahags- og viðskiptaráðherra og byggist að miklu leyti á Evrópurétti.

Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til breytingu á tillögugreininni til að útvíkka orðalag hennar nokkuð.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á tillögutextanum. Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting í þá veru að hnykkja á því að úttekt umræddrar nefndar nái til fleiri aðila en fjármálafyrirtækja einungis eins og ég hef áður nefnt. Sömuleiðis að beint verði sjónum að því hvernig styrkja megi stöðu einstaklinga og heimila enda eru neytendur á fjármálamarkaði ekki aðeins einstaklingar heldur einnig fyrirtæki og aðrir lögaðilar. Því er lagt til að í 1. málslið verði tilgreint að nefndin geri úttekt og setji fram tillögur um hvernig megi styrkja stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán. Með þessu breytta orðalagi nær úttekt nefndarinnar yfir þá aðila sem eru lánveitendur einstaklinga, svo sem fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði og vátryggingafélög. Í öðru lagi er lagt til að verkefni nefndarinnar verði einfaldað nokkuð, þ.e. að það feli í sér að bæta og skýra stöðu einstaklinga og heimila gagnvart þeim aðilum á fjármálamarkaði sem veita lán og auka ábyrgð lánveitenda gagnvart þessum hópi neytenda. Í þriðja lagi er lagt til að tilvísun til framkvæmdar í Bandaríkjunum og Kanada falli brott enda er íslenskt lagaumhverfi á þessu sviði að miklu leyti háð reglum Evrópusambandsins. Lagt er til að nefndin horfi fyrst og fremst til Norðurlandanna í samanburði sínum. Þó ber að líta til þess á að nefndin hafi heimild til að skoða neytendamál í víðara samhengi ef hún telur það nauðsynlegt, svo sem með vísan til neytendamála í Kanada sem þykja standa framarlega á sviði neytendaréttar og stjórnsýslu málaflokksins. Í fjórða lagi er lagt til að bætt verði við tveimur nýjum málsgreinum um skipan og starfstíma nefndarinnar. Lagt er til að forsætisráðherra skipi formann nefndarinnar, en efnahags- og viðskiptaráðherra, innanríkisráðherra og velferðarráðherra skipi hver sinn fulltrúa í nefndina. Þá skipi Neytendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna jafnframt hvort sinn fulltrúa í nefndina. Ég vek athygli á þessari breytingu en með henni leggur meiri hluti nefndarinnar til að hlutur neytenda í þeirri stefnumótun sem hér fer fram verði aukin frá því sem lagt var til í upphaflegri tillögu. Þá er áskilið að nefndin hafi gott samstarf við Neytendastofu, talsmann neytenda, umboðsmann skuldara, Fjármálaeftirlitið, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök lánþega og Samkeppniseftirlitið auk launþegasamtaka, svo sem ASÍ, BSRB og BHM.

Að lokum legg ég á það áherslu að lagt er til að nefndin starfi samkvæmt tilteknum tímamörkum og skili niðurstöðum eigi síðar en 15. janúar 2013.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að reifa í stórum dráttum álit meiri hlutans um þessa mikilvæga mál. Ég vil þakka sérstaklega 1. flutningsmanni tillögunnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir að eiga frumkvæði að þessu máli. Ég þakka sömuleiðis nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir þeirra ágæta framlag til málsins og vona að þetta mál hljóti almennan og góðan stuðning í þinginu til samræmis við þá vaxandi samstöðu sem er að myndast hér um aðgerðir til að standa vörð um rétt neytenda í tengslum við skuldamál heimilanna.

Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls. Að öðru leyti skrifa undir álit meiri hlutans fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í þskj. 980.