140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um þetta mál. Hins vegar sannast hér sem endranær að hv. Alþingi sinnir bara skuldurum en aldrei sparifjáreigendum. Ég hef lesið þetta yfir en get ekki séð að menn gæti hagsmuna sparifjáreigenda sem í dag eru að tapa á óverðtryggðum reikningum vegna neikvæðra raunvaxta sem bankarnir leyfa sér að borga og skattlagningar á þá neikvæðu raunvexti.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi komið til tals í nefndinni að ræða um stöðu þeirra viðskiptavina bankanna og fjármálastofnana sem eru sparifjáreigendur, sem mörgum hverjum var ráðlagt að taka út af sparisjóðsinnstæðum sínum og kaupa fyrir það í peningamarkaðssjóði eða jafnvel hlutabréf?

Mér finnst að við verðum að fara að huga að því að örva ráðdeild og sparnað í þjóðfélaginu. Það eru skuldirnar sem eru að fara með þjóðfélagið en ekki sparnaðurinn. Sparnaður heimilanna er allt of lítill og mér sýnist að menn séu enn og aftur og aftur með hugann eingöngu við skuldarana.