140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég vil undirstrika það að í sjálfu sér er tilgangurinn með henni afar göfugur. Við getum öll tekið undir að við viljum hafa heilbrigðan og traustan fjármálamarkað og ekki síst viljum við styrkja stöðu neytenda á þeim markaði. Ég held að allir sem hér eru inni geti tekið undir það en okkur greinir á um leiðir.

Það er rétt, sem hefur komið fram hér, að við sjálfstæðismenn skrifum ekki upp á þetta álit. Við munum sitja hjá í þessu máli. Þegar ég skoða þetta finnst mér málið allt að því vera flækt með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess, og við verðum að taka tillit til þess, sem er að gerast innan Stjórnarráðsins. Að störfum er nefnd sem er að gera úttekt á neytendamálum og er að fara yfir neytendamálin í heild, nema á fjármálamarkaði. Vinnu þeirrar nefndar lýkur væntanlega á þessu ári miðað við þær upplýsingar sem við fengum í allsherjar- og menntamálanefnd og er starfið leitt af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í innanríkisráðuneytinu. Það er alveg rétt, sem kemur fram í tillögunni hér og í því sem bent hefur verið á, að neytendamál eru dreifð um stjórnkerfið. Við eigum að reyna að sameina þau á einum stað þannig að Neytandinn, með stóru n-i — og það er alveg rétt sem John F. Kennedy sagði: Við erum öll neytendur. Við eigum eftir að ræða þetta: Viljum við aðgreina neytendur á fjármálamarkaði frá öðrum neytendum? Ég er ekki viss um að það sé endilega heppilegt. Hvað með þá sem eru með bílalán? Fara þeir inn í þá stofnun sem hugsanlega verður sett á fót, eða fara þeir í annað stjórnkerfi fyrir neytendur?

Hversu göfugt sem þetta markmið er, að efla og styrkja stöðu á neytendamarkaði, sem við sjálfstæðismenn tökum undir, er ég hrædd um að verið sé að fara fjallabaksleið að markmiðinu. Ég hefði kosið að menn hefðu rætt um að útvíkka starfssvið nefndarinnar sem nú er að störfum, beina þeim tilmælum til hennar að skoða sérstaklega neytendavernd á fjármálamarkaði. Auðvitað má líka segja: Gott og vel — af því að hv. þm. Skúli Helgason, framsögumaður málsins, sagði að við þyrftum öll að taka okkur á, og það er rétt, við þurfum öll að taka okkur á hér í þinginu við að vanda löggjöfina sem héðan kemur enn betur. En kannski er þessi þingsályktunartillaga fjarvistarsönnun ríkisstjórnarinnar hvað snertir skuldavanda heimilanna. Kannski er þetta leið ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Í nefndarálitinu segir meðal annars, með leyfi forseta, að það sé:

„mikilvægt að stjórnvöld gangi fram fyrir skjöldu og standi vörð um rétt neytenda.“

Síðan er vísað til dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán o.s.frv. Það er alveg rétt. Það þarf að taka tillit til þessara dóma, en ríkisstjórnin hefur skilað auðu þar. Kannski er þetta bara fínt innlegg til að reyna að bjarga ríkisstjórninni.

Ég er á því að við eigum að reyna að skoða málin heildstætt. Það er tækifæri til þess núna. Líka í ljósi þeirra breytinga sem hugsanlegar eru á forustunni hjá Fjármálaeftirlitinu. Við eigum að reyna að knýja fram breytingar á stjórnkerfinu og við eigum að ræða hvort ekki sé rétt, í ljósi þess hlutverks sem Fjármálaeftirlitið gegnir, að fara í það sem menn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu — þetta er ekki gagnrýni á ríkisstjórnarflokkana heldur líka á það, sem við höfum í öllum flokkum sagt að beri að skoða, að Fjármálaeftirlitið sé ekki undir Seðlabankanum. Sá litli hluti af Fjármálaeftirlitinu sem eftir stendur og snýr sérstaklega að neytendum verði þá settur undir aðra stofnun sem tekur heildstætt á neytendum. Þannig að neytandinn, hvort sem hann er á fjármálmarkaði, bílamarkaði, fasteignamarkaði eða matvörumarkaði, geti farið á einn stað; að það eigi að gera kerfið einfalt og skilvirkt.

Það er þess vegna sem ég varpa þeirri spurningu fram hvers vegna þetta sé ekki skoðað nú þegar tækifæri er til breytinga, tækifæri til að setja á fót eina öfluga stofnun, hvort sem það er Samkeppnisstofnun sem er skeytt saman við þann hluta Fjármálaeftirlitsins sem snertir neytendur — hann er reyndar ekki stór eins og kemur fram í bréfinu frá Fjármálaeftirlitinu, en talsmaður neytenda færi líka þar undir og Neytendastofa.

Ég efast ekki um að það er þetta atriði sem nefndin sem hefur verið skipuð af innanríkisráðherra er að skoða. Þess vegna hefði ég viljað að þingið hefði til viðbótar falið henni þetta verkefni í staðinn fyrir að við bíðum eftir skýrslu sem á að vera búið að skila eigi síðar en 15. janúar — mig minnir að 95% þeirra skýrslna sem kveðið er á um í lögum að eigi að skila sé ekki skilað innan tiltekins frests. Mér finnst við frekar vera að fresta því að taka á málum er tengjast neytendavernd á fjármálamarkaði og ég hefði því kosið að fara þessa leið.

Í bréfi frá Fjármálaeftirlitinu er ágætisyfirlit yfir það hvernig neytendamálin eru stödd í samfélagi okkar í dag. Ég vil líka benda á að það er ekki eins og ekkert hafi verið unnið í neytendamálum. Það er ekki eins og ekkert hafi verið unnið að því að reyna að koma heilbrigðu skikki á þessi mál. Gerð var skýrsla árið 2008, undir forustu Björgvins G. Sigurðssonar, eins og kom fram hér, þar sem talað var um nýja sókn í neytendamálum. Ég held einmitt að hægt sé að byggja verulega mikið á henni.

Ef við skoðum verkaskiptingu í neytendamálum og fjármálamarkaði innan Stjórnarráðsins — þá er ég bara að tala um á fjármálamarkaði, hitt kerfið er líka nógu flókið, talsmaður neytenda, Neytendastofa og fleiri aðilar — sjáum við að Fjármálaeftirlitinu, sem heyrir undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið, er falið mjög takmarkað vald varðandi neytendamálin. Þó er rétt að geta þess að Fjármálaeftirlitið hefur mótað sérstaka stefnu í neytendamálum sem er birt á heimasíðu þess. Þar er skýrt tekið fram, og það er rétt að menn viti það, að eftirlitið hefur ekki úrskurðarvald í einkaréttarlegum ágreiningsmálum sem upp kunna að koma á milli neytenda og eftirlitsskyldra aðila. Fjármálaeftirlitið hýsir hins vegar tvær úrskurðarnefndir sem eru mjög mikilvægar fyrir neytendur og fjalla um ágreiningsmál á milli neytenda og fjármálafyrirtækja annars vegar og neytenda og vátryggingafélaga hins vegar. Þannig að þetta er í raun hlutverk Fjármálaeftirlitsins.

Við erum síðan með Neytendastofu sem hefur lögum samkvæmt fengið það vald að taka ákvarðanir í einstaka málum sem varða neytendur og viðsemjendur þeirra. Af þeim verkefnum sem Neytendastofu er falið eftirlit með, og snúa sérstaklega að fjármálamarkaði, má nefna lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins frá 2005 og líka lög um neytendalán.

Rétt er að geta þess, sem ég held að menn megi heldur ekki gleyma, að búið er að boða frumvarp á vorþingi — það hlýtur þá að verða lagt fram innan tveggja vikna áður en tilskilinn frestur rennur út — búið er að boða lög um neytendalán vegna innleiðingar á tilskipunum frá ESB. Ég held að þetta séu allt tækifæri fyrir okkur til að vinna hratt frekar en fara að útbúa enn eina skýrsluna þó að markmiðið sé göfugt. Ég held að við eigum að fara í skilvirkari vinnubrögð og nota tækifærið til að fara í þessa uppstokkun sem er svo augljós og er svo þörf upp á gegnsæi fyrir neytendur í landinu.

Umboðsmaður skuldara hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Hann skal hafa hagsmuni skuldara og réttindi þeirra að leiðarljósi. Hann gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að halda uppi öflugri neytendavernd fyrir fólk, ekki síst á fjármálamarkaði.

Eftirlitsnefndin, sem sér um framkvæmd sérstakrar skuldaaðlögunar, er líka til staðar. Síðan má telja upp fleiri þætti. Menn sjá að þetta er flókið en nú er borð fyrir báru að beina því til þeirrar nefndar sem er til staðar, er á fullu í vinnu. Ég spurði sérstaklega að því í hvort hægt væri að bæta við erindisbréf nefndarinnar þannig að hún gæti strax einhent sér í að fara yfir þessa þætti, þessa þætti sem við erum sammála um að þurfa að vera betri og skýrari. Það er ljóst að það er auðveldlega hægt.

Hins vegar veit ég af fenginni reynslu að það sem skiptir máli og það sem Alþingi getur helst gert tengist því þegar verið er að endurskoða hlutverk stofnana og skýra verkferla. Þegar verkferlar og verkefni skarast á við ráðuneytið kemur oft upp togstreita á milli ráðuneyta. Togstreitan byrjar oft í embættismannaferlinu, með fullri virðingu, síðan fer hún upp til ráðherra og það er oft sem menn enda í öngstræti. Þar á þingið að geta tekið málin til sín og segja: Þið fáið ekki heimild til að vinna ekki saman, þið verðið að vinna að því að stefnan verði heildstæð og það skiptir okkur engu máli hvernig þið viljið hafa þetta innan Stjórnarráðsins, Alþingi getur alveg haft skýra skoðun á því hvar það eigi að vera og hvernig málum eigi að vera háttað. Enda sýnir það sig að þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu núna — og við finnum það öll held ég, meðal annars innan nefndarinnar. Ég tel þó að margar breytingar, ekki síst á þingskapalögum, séu til hins betra. Ég held að framsögumannakerfið innan nefndanna sé til mikilla bóta. Við sjáum það meðal annars á því að þingmannamálum, hvort sem það er gott eða vont, er að fjölga hér í umræðu. Ég held að það sé fínt. Hins vegar má það ekki vera tilgangur í sjálfu sér að afgreiða þingmannamál af því að þau eru þingmannamál. Við þurfum að spyrja að innihaldinu og hvort við getum náð göfugum markmiðum með öðrum skilvirkari aðferðum. Ég held að það sé hægt í þessu tilviki.

Mér finnst við vera, eins og ég segi, að fara ákveðna fjallabaksleið við að efla og styrkja neytendavernd á Íslandi. Ég held að við eigum fyrst og fremst að byrja innan ríkisstjórnar sem hefur ekki staðið sig hvað þetta varðar. Við getum öll farið í að rökræða það, en ég held að þetta mál undirstriki það að ríkisstjórnin hefur ekki haldið með sómasamlegum hætti á neytendamálum, skuldamálum heimila og fyrirtækja.

Ég ætla ekki að fara frekar yfir þetta mál að öðru leyti en því að efnislega erum við sammála því, við sjálfstæðismenn, að hér þurfi að vera heilbrigður og traustur fjármálamarkaður. Við þurfum að styrkja neytendur á öllum sviðum. Ég held að það hafi komið ljómandi vel fram í andsvörum við ræðu framsögumanns hér áðan að ekki er verið að huga að öllum neytendum, ekki er verið að hugsa um alla neytendur eins og Kennedy benti á á sínum tíma. Það er verið að undanskilja ákveðinn hóp sem tengist fjármálamarkaðnum og ekki er verið að sinna honum. Það er hlutur sem ég hefði gjarnan viljað að nefndin sem er að störfum hefði getað farið yfir, ef við hefðum farið þá leiðina. Ég undirstrika að nú er það tækifæri til staðar að endurskipuleggja stofnanaverkið sem tengist neytendum almennt. Það er einmitt það sem menn eru að benda á í ýmsum umsögnum.

Ég vil líka geta um ákveðnar efasemdir okkar sjálfstæðismanna varðandi upphaflegu tillöguna, en henni hefur sem betur fer verið breytt í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er meðal annars það sem sagt var í upphaflegu tillögunni um að hugsanlega yrði sett á fót ný stofnun. Sú spurning var undirliggjandi hjá mörgum þeim sem komu á fund nefndarinnar, hvort sem það voru Samtök atvinnulífsins, Neytendastofa eða aðrir, hvort setja ætti á fót enn eina ríkisstofnunina. Ég held að það sé mjög varhugavert. Ég vil sérstaklega draga það fram að við sjálfstæðismenn erum andvíg því að enn ein stofnunin verði sett á fót. Það er nær að menn skoði það í þessari heildstæðu úttekt hvar þessum málum er best fyrir komið, að ekki verið farið að setja upp enn eina eftirlitsstofnunina.

Ég vil að öðru leyti þakka fyrir starfið í nefndinni. Ég held að það hafi verið mjög gagnlegt að fá þá gesti sem við fengum á fund nefndarinnar, sem fóru vel yfir sjónarmið sín, en ekki síður það að okkur gafst tækifæri til að ræða nokkuð vítt og breitt um þetta mál og fyrir þau vinnubrögð vil ég þakka.

Eins og ég gat um áðan munum við sjálfstæðismenn sitja hjá við þessa leið því að við teljum hana ekki vera best til þess fallna að styrkja stöðu neytenda á fjármálamarkaði, sem við erum þó öll sammála um að beri að gera.