140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hennar. Það sem ég vildi bæta við í framhaldi af ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er að þó að til verði „ný stofnun“ með nýju heiti hljómaði það samt sem áður svo, þegar hv. þingmaður fór í gegnum þær hugmyndir sem eru í gangi, að menn séu frekar eiginlega að tala um að sameina núverandi stofnanir og jafnvel fækka stofnunum þótt nýja stofnunin mundi heita eitthvað annað, þannig að verkefnunum yrði skipt öðruvísi. Sem dæmi, ef Fjármálaeftirlitið færi undir Seðlabankann værum við komin þar með eina sjálfstæða stofnun í staðinn fyrir tvær. Hið sama væri ef við sameinuðum til dæmis Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið, þá værum við búin að fækka þar um tvær stofnanir raunar. Ef við mundum skoða hvar við vildum staðsetja umboðsmann skuldara, þegar hann væri búinn að vaða í gegnum mestu endurskipulagningu á skuldavanda heimilanna, væri hugsanlega möguleiki á því að sameina það embætti jafnvel líka Neytendastofu og Samkeppniseftirlitinu.

Þó að hugsanlega kæmu ný nöfn erum við að tala um raunverulega fækkun stofnana. Þó að ég sé kannski síðasta manneskjan til að hrósa þessari ríkisstjórn mikið varðandi fjárhagslega endurskipulagningu hjá heimilum og fyrirtækjum má hún samt eiga það að hún hefur fækkað umtalsvert stofnunum í samanburði við þær ríkisstjórnir sem fóru á undan henni.