140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðasta atriðið fer það eftir um hvaða málaflokka menn eru að tala. Ef menn skoða önnur ráðuneyti var markvisst verið að reyna að sameina stofnanir, t.d. á sviði háskólamála, en það er önnur Ella.

Hins vegar sé ég ekki ef við náum að sameina fleiri stofnanir að það réttlæti tilvist enn einnar nýrrar stofnunar. Ég held miklu frekar að meiri dínamík verði í því ef menn sameina þær stofnanir sem hv. þingmaður kom inn á og ég í minni ræðu.

Ég verð að segja hvað það varðar að menn hafi reynt að ná einhverri lendingu, þá hefur kannski ekki sérstaklega reynt á það enda eru menn ekki endilega tilbúnir til að samþykkja þær breytingar sem sjálfstæðismenn hafa lagt fyrir. Ég get til dæmis nefnt tillögur okkar sem við settum fram fyrir tveimur árum um flýtimeðferð í réttarfarsmálum er tengjast skuldamálum heimila og fyrirtækja. Ekki var tekið undir það. Það var alveg skýrt af hverju það var. Það var út af því að það voru sjálfstæðismenn sem lögðu þá tillögu fram. Sem betur fer dúkkar hún upp núna, ég vona að hún hljóti brautargengi þó að hún komi efnislega frá okkur sjálfstæðismönnum. Það skiptir öllu máli að tillögurnar feli efnislega í sér réttarbætur fyrir fólkið í landinu. Hugsunin í þessu er sú að menn vilja ná fram ákveðnum réttarbótum.

Ég held hins vegar að menn hafi ekki reynt nóg til þess að átta sig á að við höfum ekki endilega allt of mikinn tíma. Reynum að nýta tímann betur. Reynum að nýta þá „instansa“ sem eru fyrir í samfélaginu núna til að reyna að knýja fram þær bætur sem við erum sammála um. Já, ég hefði gjarnan viljað sjá fram á það að menn hefðu gefið sér meiri tíma til að ná þverpólitískri lendingu. Sú varð ekki raunin.

Við sjálfstæðismenn munum ekki standa gegn þessu. Við munum sitja hjá, en ég hefði talið aðrar leiðir heppilegri af því ég er hrædd um að þetta bjóði upp á stóraukið eftirlit á svo mörgum sviðum. Við erum búin að sjá það, alla vega hjá þessari ríkisstjórn, að hún er tilbúin að setja mikinn pening í (Forseti hringir.) aukna miðstýringu.