140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nefndin hefur breytt ályktuninni í þá veru að öll áhersla er lögð á lántakendur og skuldara. Ég get ekki með nokkru móti séð að hagsmunir sparifjáreigenda komi þarna við sögu, fyrir utan það að ekki er vísað í þau samtök sem þeir eru þó í, sem eru Samtök fjárfesta. Þeir eiga ekki að tilnefna í nefndina.

Þessi þingsályktun er orðin að skuldaraþingsályktun og nær bara til skuldara. Það er kannski allt í lagi og réttmætt og allt svoleiðis, en mér finnst keyra um þverbak hvað þessi hæstv. ríkisstjórn og þessir hv. stjórnarþingmenn leggja mikla áherslu á skuldarahliðina, vegna þess að það kemur að því að hér muni skorta sparifé til að lána til ungs fólks sem vill kaupa sér íbúð, til fyrirtækja sem vilja fjárfesta og skapa atvinnu.

Við erum að saga greinina sem við sitjum á. Þetta er mjög alvarlegt. Það er búið að hækka fjármagnsskatt úr 10% upp í 20% af nafnvöxtum. Verðbólgan er 6,5%. Vextir eru um 3% og þeir eru skattaðir um 20%, niður í 2,4%. Þetta eru hæstu vextirnir. Þannig að við erum í mjög alvarlegri stöðu til framtíðar, en það getur vel verið að núverandi lántakendur og skuldarar vilji sjá til þess að börnin þeirra fá ekki lán.