140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

253. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það má með sanni segja að þau lög séu barn síns tíma, en einhverra hluta vegna hefur verið afar erfitt fyrir þingmenn og ráðherra að fá fram breytingar á þeim sem taka tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið í samfélaginu, meðal annars krafna sem gerðar eru um meðferð opinbers fjár, til skilvirkni ríkisstofnana o.s.frv.

Ljóst er að það er löngu tímabært að þessar breytingar verði. Þær hafa skírskotun til þess frumvarps sem ég mæli fyrir og til þess sem sagt er í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum starfsmannalaganna og miða breytingarnar fyrst og fremst að því að fella niður skyldu forstöðumanns að áminna starfsmann með formlegum hætti vegna brots á starfsskyldum hins síðarnefnda eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem fylgja starfi hans.

Það er rétt að geta þess að frumvarp nokkurn veginn sama efnis var lagt fram af þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, árið 2004 en ljóst var að stjórnarandstaða þess tíma, sem situr meira og minna í ríkisstjórn núna, var algjörlega andsnúin öllum breytingum á starfsmannalögunum og vildi hafa ástandið óbreytt. Þess ber þó að geta að ég greini ákveðinn skilning á þessum breytingum innan stjórnarliðsins og ég vona að sá skilningur nái bæði til nefndar og síðan hingað inn í þingsal, að við fáum að minnsta kosti tækifæri til að greiða atkvæði um þetta mál sem er, eins og ég gat um áðan, orðið löngu tímabært að þingið fái tækifæri til að fjalla um og afgreiða með sínum hætti.

Í almennum athugasemdum við það frumvarp sem lagt var fyrir þingið á árinu 2004 kom fram að markmið með setningu þeirra laga hefði einkum verið þríþætt: Í fyrsta lagi að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði, í öðru lagi að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir sem varða bæði stjórnun og starfsmannahald, í þriðja lagi að fella brott ýmis úrelt ákvæði eldri laga um réttindi og skyldur.

Tilgangur þess frumvarps sem ég mæli fyrir er að sjálfsögðu að stefna að auknum sveigjanleika í rekstrarumhverfi stofnana ríkisins og hins opinbera — ég ætla örstutt að koma inn á sveitarfélögin hér á eftir — þannig að ríkið hafi á að skipa hæfustu starfsmönnum sem kostur er á hverju sinni og að fjármunir séu nýttir á sem árangursríkastan hátt.

Ég vil sérstaklega í þessu sambandi benda á ítrekaðar ábendingar Ríkisendurskoðunar um það sem betur má fara í starfsemi hinna ýmsu ríkisstofnana, ábendingar sem ætlaðar eru til þess að skerpa á ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þessar ábendingar komu fram í skýrslu sem kom út í janúar 2011. Þar segir að kerfið allt sé mjög þunglamalegt áður en kemur til uppsagnar ríkisstarfsmanns og mjög tímafrekt. Kerfið leiði til þess að starfsmenn sem brjóta af sér í starfi eða eru ekki hæfir til að gegna starfi sínu fái ríkari vernd en til sé ætlast og mun ríkari vernd en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Ríkisendurskoðun leggur því til að málsmeðferð við uppsögn ríkisstarfsmanna verði einfölduð og ákvæði starfsmannalaga, sérstaklega hvað varðar áminninguna, verði endurskoðuð og undirstrikar að flestir ríkisstarfsmenn njóti lögbundinnar verndar.

Það er í sjálfu sér umhugsunarefni í nútímasamfélagi að flestir ríkisstarfsmenn njóta lögbundinnar verndar í starfi umfram launþega á almennum vinnumarkaði. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að þessi vernd birtist meðal annars í því að ef ríkisstarfsmaður brýtur af sér í starfi eða árangur hans er talinn ófullnægjandi verði yfirmaður að veita honum skriflega áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt, ekki megi segja ríkisstarfsmanninum upp nema hann brjóti aftur af sér með svipuðum hætti. Síðan má ekki líða of langur tími á milli brota því að þá telst fyrra brotið fyrnt og áminna þarf að nýju og gefa starfsmanninum aftur kost á að bæta sig.

Almennt er bent á í skýrslu Ríkisendurskoðunar að deilt sé um, eins og ég sagði áðan, hvort eðlilegt sé að ríkisstarfsmenn búi við meira starfsöryggi en launþegar á almennum vinnumarkaði. Því hefur verið haldið fram og er dregið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að lagaákvæði sem vernda ríkisstarfsmenn geti komið niður á skilvirkni og árangri í opinberum rekstri og því sé nauðsynlegt að auka sveigjanleika í starfsmannamálum ríkisins. Undir þetta vil ég taka.

Við skulum hafa það í huga að áminningu er mjög sjaldan beitt og þegar ríkisstarfsmenn hafa leitað samkvæmt rétti sínum til umboðsmanns Alþingis hefur ráðherra oftar en ekki verið gerður afturreka þó að tilgangurinn hafi verið skýr. Menn hafa sýnt fram á að þetta er ekki það aðhaldstæki sem þyrfti að vera, það er þunglamalegt og leiðir til þess að skilvirkni innan stjórnsýslunnar verður ekki eins og æskilegt er. Á árunum 2004–2009 fengu 17 ríkisstarfsmenn áminningu, þar af þrír forstöðumenn, og við skulum hafa í huga að þá voru 24 þúsund ríkisstarfsmenn við störf, eins og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ég vil líka nefna að samhliða því sem Ríkisendurskoðun dregur fram að lögin mæli fyrir um ferli sem er bæði flókið og tímafrekt þá gefur könnun Ríkisendurskoðunar til kynna að margir forstöðumenn veigri sér við að beita áminningu og noti fremur önnur og óformlegri úrræði ef þeir telja sig þurfa að segja upp starfsmanni. Einnig ríkir mjög neikvætt viðhorf í samfélaginu til áminningar og hún er jafnvel talin ærumissir fyrir þann sem fyrir henni verður. Ég held að þetta sé nokkuð sem við þurfum að hafa í huga. Það er algjör óþarfi ef mönnum hefur orðið á í starfi að þeir þurfi að burðast með áminningu fyrir það eitt að reynt var að koma þeim úr starfi. Ég held að allt bendi til þess að kerfið í dag sé ekki í neinu samhengi við samfélagið, þær ríkisstofnanir eða opinberar stofnanir sem við búum við og viljum að starfi eftir ákveðnum reglum og skili árangri.

Það er líka rétt að geta þess í tengslum við að forstöðumenn veigri sér við að beita áminningum að oftar en ekki eru gerðir starfslokasamningar við ríkisstarfsmenn. Ég vil draga það fram og það er nokkuð sem ég beini þá til nefndarinnar sem verður með málið til umfjöllunar að menn skoði það sérstaklega hvort eigi að setja ákvæði um gerð starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn í lög. Þrátt fyrir að engin ákvæði séu þar um í lögum hafa 17% forstöðumanna engu að síður gert slíkan samning, t.d. um það að starfsmaður þurfi ekki að vinna uppsagnarfrestinn. Það eru alls konar samningar í gangi og ég held að það sé verðugt verkefni að taka á þessu.

Þau rök sem færð hafa verið fyrir því að önnur lögmál gildi um uppsagnir ríkisstarfsmanna en starfsmanna á almennum vinnumarkaði eru að vernda þurfi ríkisstarfsmenn fyrir pólitískum afskiptum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er dregið fram og sagt að þessi rök eigi ekki lengur við þar sem núgildandi lög — og þá kemur að því sem ég sagði í upphafi — byggja á lögum frá 1954, minnir mig, og eru því að grunni til byggð á gömlum lögum sem áttu við umhverfið þá en ekki það sem við búum við í dag.

Hvað hefur breyst síðan þau lög voru sett? Jú, það eru til dæmis komin stjórnsýslulög og í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að stjórnsýslulögin verndi meðal annars ríkisstarfsmenn, þess sé krafist að ákvarðanir varðandi starfsmenn séu rökstuddar og þær séu málefnalegar og með því hafi umboðsmaður Alþingis eftirlit. Frá því að gömlu lögin voru samþykkt, sem núgildandi lög byggja á, hefur umboðsmaður Alþingis sem betur fer tekið til starfa og hefur svo sannarlega sýnt fram á að hann er varðmaður þess að farið sé að lögum, þar með talið stjórnsýslulögum.

Þá er líka bent á í skýrslu Ríkisendurskoðunar að rök um pólitísk afskipti eigi vart við um stóra hópa eins og stærstu hópa ríkisstarfsmanna sem eru heilbrigðisstarfsmenn eða kennarar. Allt eru þetta athyglisverðar ábendingar frá Ríkisendurskoðun sem ég tel mikilvægt að við gefum einhvern tíma meiri gaum og fáum tækifæri til að taka afstöðu til og breyta í þágu nútímasamfélags.

Það má líka velta því fyrir sér í ljósi þess sem ég sagði áðan, varðandi þá sem voru í hvað einarðastri andstöðu við breytingarnar á sínum tíma árið 2004, að þeir einstaklingar eru nú komnir í ríkisstjórn. Það má líka segja að ákvarðanir innanríkisráðherra, hverjar sem þær eru, feli frekar í sér að núgildandi starfsmannalög með öllu áminningarferlinu, því flókna ferli, verði ítrekuð og staðfest, ekki síst er varðar starfsemi ríkis og sveitarfélaga. Þetta þýðir til að mynda að sveitarfélög eiga erfitt með að fara í ákveðna skipulagningu á skipuriti sínu. Það má alveg velta því fyrir sér hvort þetta sé þá andstætt því sem við höfum samþykk hér á þingi um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og ábyrgð sveitarstjórnarmanna varðandi rekstur og skipulag sveitarfélaga. Þetta set ég fram til umhugsunar um hvort þessi lög rýri þá ábyrgð sem sveitarstjórnarmenn hafa á skilvirkum og ábyrgum rekstri sveitarfélaga. Geta sveitarstjórnarmenn með þeim lögum sem gilda í dag um starfsmenn hins opinbera raunverulega sinnt þeirri skyldu sem þeim er lögð á herðar á grundvelli sveitarstjórnarlaga?

Að öllu þessu sögðu, frú forseti, vil ég eindregið mæla með því að þetta mál verði sent til nefndar og að nefndin taki rösklega á því. Þetta hefur áður verið til umfjöllunar. Ég lagði málið líka fram í fyrra. Það er alveg ljóst að þó að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki haft mikla löngun til að breyta starfsmannalögunum hér áður fyrr þá geri ég mér grein fyrir því að ýmsir innan stjórnarflokkanna eru sammála mér um að það þurfi að breyta þeim til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru á hinum almenna vinnumarkaði. Um leið menn vilja aukna skilvirkni og ábyrgð innan ríkisstofnana skerpir ný löggjöf, eins og stjórnsýslulögin á síðustu árum, á réttarstöðu þeirra ríkisstarfsmanna sem um ræðir.

Ég mæli með því að þetta mál verði sem fyrst sent til nefndar og menn fari yfir þær athugasemdir sem hafa verið settar fram í ljósi sögunnar, en ekki síst að tekið verði tillit til tiltölulega nýtilkominna athugasemda Ríkisendurskoðunar í þessum efnum.