140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

253. mál
[16:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég hyggst gera slíkt hið sama og hv. 4. þingmaður Suðvest., Magnús Norðdahl. Ég ætla að lýsa yfir stuðningi við það frumvarp sem hv. 5. þm. Suðvest., Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, mælti hér fyrir, um breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég tel að það sé löngu tímabært að ganga til slíkra verka. Þetta er þunglamalegt kerfi og gamalt, það er úr öllum takti við nútímann, það er hvorki einfalt né gegnsætt. Því sem við höfum kallað eftir var meðal annars kallað eftir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis; að stjórnsýslan yrði opin, gegnsæ og einföld. Þetta er hluti af því. Þess vegna segi ég: Því fyrr því betra. Ég vonast til þess að sú nefnd sem fær þetta frumvarp til skoðunar hafi hraðar hendur og vinni vel og að við fáum tækifæri sem þingmenn á þessu vorþingi til að taka afstöðu til þessa máls og greiða um það atkvæði. Ég lýsi enn og aftur yfir fullum stuðningi við þetta frumvarp.