140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég tel að flutningur heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga muni tvímælalaust styðja sveitarfélögin í þjónustu við fatlaða, hvort sem það eru ungir fatlaðir eða eldri fatlaðir, og í heildarþjónustu við íbúa, hvort heldur þeir eru á leikskólastigi, á grunnskólastigi, aldraðir, fatlaðir eða ófatlaðir. Með því, ásamt félagsþjónustunni, geti sveitarfélagið horft heildrænt á þarfir íbúanna og þá þjónustu sem einstaklingarnir eiga rétt á eða þurfa á að halda og metið slíka þjónustu. Menn ætluðu sér að skoða að ári liðnu hvernig til hefði tekist við að flytja málefni fatlaðra yfir og við endurskoðun á því held ég að ekki sé spurning í mínum huga um að heilsugæslan í höndum sveitarfélaganna muni styðja við þann málaflokk á nákvæmlega sama hátt og hún mun sömuleiðis styðja við heilbrigð börn í grunn- og leikskóla og í allri þeirri nærþjónustu sem sveitarfélögin veita.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á það að grunnskólinn hefði verið færður frá ríki til sveitarfélaga. Öllum er ljóst að við þá yfirfærslu hefur verið bætt um betur í allri þjónustu við þá sem stunda nám i grunnskólum. Fleiri aðilar en eingöngu kennarar hafa komið inn í grunnskólann og sveitarfélögin hafa sýnt metnað sinn í að veita þá bestu þjónustu sem þeim er unnt í slíkum málum. Þeim er treystandi fyrir nærþjónustu við íbúa sína og það er okkur til heilla að þessi nærþjónusta sé á öllum sviðum á einni hendi. Það gerir hana skilvirkari og betri.