140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[16:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er áhugaverð þingsályktunartillaga með góð markmið og hér hefur orðið ágætisumræða um málið. Í þessu sambandi vil ég hins vegar minna á að í sinni einföldustu mynd gengur heilbrigðisþjónustan út á að það verður að vera samfella í hlutum. Við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á forvarnir þannig að fólk þurfi ekki á heilbrigðisþjónustu að halda. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaðurinn og þarf að vera afskaplega virkur fyrsti viðkomustaður. Síðan erum við með sjúkrahús ef fólk er alvarlega veikt og þegar ljóst er að fólk verður langveikt erum við með hjúkrunarheimili, heimahjúkrun og aðra slíka þjónustu.

Það skiptir ekki öllu máli hver sér um rekstur viðkomandi stofnana, það sem skiptir máli er að það sé samfella í þessu. Einn vandinn er til dæmis sá, hljómar kannski sérkennilega, eitt verkefnið er að halda fólki frá sjúkrahúsum af mörgum ástæðum. Auðvitað viljum við ekki að fólk verði alvarlega veikt, en ef það verður alvarlega veikt verður það auðvitað að fara á sjúkrahús. Sjúkrahús eru hættulegir staðir. Þar er mikil sýkingarhætta og við viljum helst hafa sem allra fæsta þar.

Nú gæti einhver sagt: Bíddu, er það ekki heilbrigð skynsemi og allir sammála um það? Jú, ég held að allir séu sammála um það, en ef ekki er samfella í þessu og ef það er ekki rétti hvatinn í kerfinu er hætta á því að verkefnum sem eiga ekki heima á sjúkrahúsunum sé stýrt þangað. Þó að það tengist ekki þessu máli nema óbeint minni ég á að fyrir nokkrum missirum, það var reyndar þannig þegar ég tók við sem heilbrigðisráðherra, var talað um að hundruð manna væru á göngum Landspítalans. Eftir að reglugerð og lögum um vistunarmat var breytt sem og forgangsröðinni þannig að þeir sem þurftu á mestri þjónustu að halda fóru fyrst inn á hjúkrunarheimilin fór þetta fólk sem var á sjúkrahúsunum að ósekju, þetta var mjög dýrt, inn á hjúkrunarheimili eða fékk heimaþjónustu sem mikil áhersla var lögð á.

Að mínu áliti er ástandið í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu núna ekki nógu gott. Þjónustan er ekki nógu skilvirk og við þurfum í það minnsta að byrja á því, það er hægt að gera samhliða þessu ef menn vilja fara þá leið, að sjá til þess að þjónustan hjá heilsugæslunni sé skilvirkari, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Sama hver sér um reksturinn eða utanumhaldið þurfum við að koma í veg fyrir að verkefni verði send annað en þau eiga heima, t.d. á sjúkrahúsin. Núna sinnir Landspítalinn þjónustu sem ætti að vera hjá heilsugæslunni. Bráðaþjónustan á Landspítalanum er allt of mikið notuð, m.a. af fólki sem finnst kannski einfaldast að fara þangað en það fólk ætti í raun heima hjá heilsugæslunni. Biðlistarnir þar eru hins vegar svo langir að fólk fer frekar í bráðaþjónustuna.

Við verðum að laga þetta áður en við ákveðum að færa heilsugæsluna til sveitarfélaganna. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að það sé erfitt að tala um sveitarfélögin sem eina heild. Sveitarfélögin á Íslandi eru frá því að vera 50 manna hreppar, eins og í Árnesi og Skorradalshreppur, yfir í að vera 116 þús. manna borg eins og Reykjavíkurborg er. Sums staðar hentar mjög vel að sveitarfélögin yfirtaki þjónustu eins og heilsugæslu. Þau gera það á Akureyri og líka á Höfn í Hornafirði. Það gengur mjög vel eftir því sem ég best veit. Ég vissi að á sínum tíma voru í það minnsta flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tilbúin að taka við heilsugæslunni. Hún gat runnið mjög auðveldlega saman við ýmsa þjónustu og verkefni sem sveitarfélögin sinna núna.

Virðulegi forseti. Það er góður hugur og rétt markmið sem koma fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, 1. flutningsmanni málsins. Ég verð hins vegar að leggja áherslu á að þetta er stærsta einstaka málið. Við verðum að sjá til þess að heilsugæslan sinni betur hlutverki sínu en hún gerir núna, sama hver mun reka viðkomandi heilsugæslustöð. Núna rekur ríkið sumar heilsugæslustöðvar en einkaaðilar líka, t.d. í Kópavogi og þar gengur það mjög vel. Samkvæmt könnunum kemur sú heilsugæslustöð best út, bæði fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda og líka kostnaðarlega fyrir ríkið. Þetta er það sem við þurfum að skoða sérstaklega og sjá til þess að sé í lagi, þ.e. að þessi samfella virki. Eins og er vantar þó nokkuð upp á það og það er alveg kjörið þegar menn taka þessa umræðu í hv. velferðarnefnd að menn skoði þessa þætti nákvæmlega. Ef við gerum það ekki er það ávísun á vandræði og jafnvel enn meiri vandræði en eru núna ef þetta verður tog á milli ríkis og sveitarfélaga.

Síðan er ég sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um málefni aldraðra og flutninginn á þeim málaflokki til sveitarfélaganna. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér finnst að menn ættu að byrja á að skilgreina málefni aldraðra. Það hefur verið ótrúlega lítið um það í umræðunni og jafnvel þegar maður hefur spurt þá sem hafa talað um málefni aldraðra: Hvaða málaflokk eruð þið að tala um? vita menn það ekki. Ég vil ekki trúa því að neinn vilji aldursskipta heilbrigðisþjónustunni. Stærsti hluti heilbrigðisþjónustunnar er þjónusta við aldraða eðli málsins samkvæmt og þannig verður það alltaf. Við munum þurfa meiri áherslu á heilbrigðisþjónustuna af því að þjóðin er að eldast og það er það sama og gerist alls staðar annars staðar. Sú umræða er nokkuð grunn. Hún er kannski ekki til umræðu hér en ég vildi vekja athygli á þessu, virðulegi forseti.