140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa þátttöku í umræðunni. Það kom skýrt fram í máli mínu að það þarf að skilgreina hvaða þjónustu heilsugæslustöðvar eiga að veita svo það fari ekki í neitt tog um það síðar meir hver á að veita hvaða þjónustu.

Þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talar um heildstæða þjónustu innan heilbrigðisgeirans við þá sem þurfa á þeirri þjónustu að halda, get ég verið sammála því. Ég held þó að við getum veitt heildstæða þjónustu og við eigum að beita okkur í því máli að koma hér með samræmdar rafrænar sjúkraskrár þannig að hægt sé að nálgast upplýsingar um sjúklinginn á einum og sama staðnum, hvar sem hann í sjálfu sér leitar eftir þjónustunni. Hvort sem hann er barn, unglingur eða fullorðinn á að vera hægt að skoða það.

Ég er sammála hv. þingmanni um hverju málaflokkur aldraða tilheyrir. Ég veit hins vegar hvaða þjónustu sveitarfélögin veita öldruðum og ég veit hvaða þjónusta öldruðum er veitt á hjúkrunarheimilum. Ég vil hins vegar horfa á að hægt sé að samþætta bæði heimahjúkrunina sem heilsugæslustöðvarnar veita og félagsþjónustuna sem sveitarfélögin sinna betur ef um einn og sama aðilann er að ræða sem rekur heilsugæsluna sem og félagsþjónustuna og að það sé samspil í því. Þannig er hægt að veita heildstæða þjónustu við íbúann eins lengi í heimabyggð, á heimili eða í þjónustuíbúðum og öryggisíbúðum, áður en við tekur vera annaðhvort í hjúkrunarrými eða á sjúkrahúsi.

Grunnurinn við þessa yfirfærslu, ef af henni verður, er hvaða þjónustu á að veita á heilsugæslustöðvum og ég mun koma í síðara andsvari mínu inn á þessa smærri hreppi sem og hin stærri sveitarfélög.