140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[16:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála þessu um samræmdu sjúkraskrána og mér er fullkomlega óskiljanlegt að hún sé ekki komin í gagnið. Við breyttum lögum 2007 til að hægt væri að fara í samræmda sjúkraskrá. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skildi við var kominn hópur sem var að fara í að nýta þá 1,6 milljarða sem á hverju ári eru notaðir í, voru að minnsta kosti, rafræna þætti í heilbrigðisþjónustunni. Af hverju erum við einhvern veginn alltaf á byrjunarreit? Það er kannski bara dæmi um verkleysi þessarar hæstv. ríkisstjórnar.

Það er ekki aðalatriðið hver veitir þjónustuna. Núna er til dæmis heimahjúkrunin á höfuðborgarsvæðinu veitt af sveitarfélögunum. Þar er búið að sameina, (Gripið fram í: Bara í Reykjavík.) í það minnsta í Reykjavík og eftir því sem ég best vissi á fleiri stöðum, heimahjúkrunina og heimaþjónustuna þrátt fyrir að heimaþjónustan sé á hendi sveitarfélaga en heimahjúkrunin sé verkefni ríkisins.

Stóra einstaka málið í mínum huga er að við leitum leiða til að sjá til þess að alltaf sé best þjónusta veitt með sem minnstum tilkostnaði. Við stigum ákveðin skref í því með Sjúkratryggingum Íslands og þeirri hugmyndafræði, þó að núverandi hæstv. ríkisstjórn hafi heykst á að stíga næstu skref sem aðrar þjóðir hafa gert, nota bene Norðurlandaþjóðir. Ef við förum þá leið skiptir ekki máli hver ber ábyrgð á þjónustunni, þetta er hins vegar trygging fyrir því að sem best þjónusta sé veitt á hverjum stað. Ef það er hugað að þessu og heildarskipulaginu, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, munum við ná góðum árangri.