140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson segir að það skipti ekki máli hver veitir þjónustuna. Ég get tekið undir að það skipti kannski ekki máli hver veitir hana en ég tel hins vegar skipta máli hvort það er einkarekin heilsugæslustöð eða stöð rekin af hinu opinbera. Það yrði þá sveitarfélagið ef farið yrði út í að færa þjónustuna yfir. Þegar um er að ræða nærþjónustu eins og þá sem er á heilsugæslustöðvum, þ.e. fyrsta stig í hjúkrunar- og lækningaþjónustu við íbúana, tel ég að það sé með þeirri hugmyndafræði að á fyrsta stiginu sé sú nærþjónusta betur komin í höndum sveitarfélaga til samþættingar gagnvart börnum, unglingum og fullorðnu fólki og svo öldruðum en ef heilsugæslan væri á vegum ríkisins, eins og nú er, og önnur þjónusta sem tengist íbúunum á hendi sveitarfélags. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ríkið eigi sem minnst að vasast í slíkri þjónustu en það er annar handleggur. Ég held að það sé hægt að færa þetta úr höndum ríkisins yfir til sveitarfélaga og einkaaðila með mun skilvirkari hætti en margt er gert hjá ríkinu.

Af því að hv. þingmaður kom inn á að sums staðar væru hreppir svo smáir að þeir yrðu vart færir um að veita þjónustuna kom það fram í ræðu minni að við færum eins að og með málefni fatlaðra. Þar sem íbúafjöldinn er undir því lágmarki sem svona skipulagsheild kallar á gætu sveitarfélögin tekið sig saman. Við vitnuðum einnig í samninginn frá Akureyri og Höfn í Hornafirði, en einhverra hluta vegna hafa ekki verið gerðir slíkir samningar við fleiri sveitarfélög. Þessi tillaga er meðal annars komin til vegna þess.