140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[17:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samþætting innan nærþjónustu er auðvitað mjög skynsamleg en við getum hins vegar gert þetta allt saman núna ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Heilbrigðisráðherra hefur alveg tök á því að semja við hvaða sveitarfélag sem er til að yfirtaka heilsugæsluna. Ég tel að það sé bara mjög skynsamlegt. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór frá völdum voru komnar í gang viðræður, eins og ég segi. Það var búið að gefa það út við nokkur sveitarfélög að setja það í farveg. Það voru flest sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, ef ekki öll ef undan er skilin Reykjavík. Þetta var Reykjanes og í tengslum við sameininguna á Norðurlandi hafði í það minnsta Húsavík lýst yfir áhuga á að koma að því að yfirtaka heilbrigðisþjónustuna þar. Ýmsar hugmyndir voru uppi sem gátu gert það að verkum að það hefði getað verið skynsamlegt. Hið sama á við um Vestmannaeyjar. Það eru mjög mismunandi aðstæður og ein lausn hentar ekki öllum. Til dæmis eru Vestmannaeyjar eyjar sem þarf ekki taka fram. Á Húsavík erum við með gríðarlega stórt sveitarfélag hvað landflæmi varðar. Heimamenn þekkja mjög vel til hvernig best er að sinna þjónustunni þar. Þetta er allt saman hægt og mikilvægt að menn gangi í þau verk þar sem augljóst er að hægt sé að fara þessa leið.

Ég vara bara við því að þetta verði til þess, eins og oft hefur verið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, að annar aðilinn sendi reikninginn á hinn. Núna er þetta hvort tveggja hjá ríkinu en það er ýmislegt sem Landspítalinn er að sinna sem heilsugæslan ætti að sinna. (Forseti hringir.) Við verðum að passa okkur á því að fara ekki lengra inn á þá braut.