140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt í athugasemd hv. þingmanns sem ég geri athugasemd við, annars vegar að þjóðin græði á því að halda verði áorkunni niðri. 70–80% af orkunni eru seld til útlendinga í álverði þannig að við erum þá að niðurgreiða orkuna fyrir útlendingana. Við bjóðum þá orku á of lágu verði. (Gripið fram í.) Það er miklu skynsamlegra að gera eins og ég segi vegna þess að þegar menn færu að bjóða í til dæmis Kárahnjúkavirkjun hf. mundu menn reikna hugsanlega hækkun inn í verðið og þjóðin fengi hækkunina í kassann og gæti lækkað skatta sem næmi miklu meira en því. Það er því ekki skynsamlegt að halda niðri verði á vöru sem við flytjum 80% út af.

Hins vegar varðandi það að fyrirtæki geti sett okkur í þumalskrúfu er það bara nákvæmlega það sama og er í dag. Við skuldum svo mikið í Landsvirkjun og álfyrirtækin sem standa undir öllum hagnaðinum geta líka sett okkur í þumalskrúfu þegar við ætlum að fara að endursemja um orkuverð til þeirra þegar samningarnir renna út, þeir renna út á hverju ári, alla vega einhver hluti af þeim, og þá geta þeir sett okkur í sömu þumalskrúfu, ef við erum svona svakalega hrædd við stórfyrirtæki. Þeir geta sagt að ef við samþykkjum ekki svona lágt orkuverð fari þeir bara með álverið eitthvert annað.

Eins og hv. þingmaður tók eftir ætla ég að skipta Landsvirkjun upp í þrennt: Það eru þrjú fyrirtæki sem eru í samkeppni hvert við annað og samkeppnisráð passar það. Svo kæmu að sjálfsögðu Orkubú Vestfjarða hf.og Rarik og þá værum við komin með fimm fyrirtæki sem keppa um hylli íslenskra heimila eða selja þeim orku. Þá mundi koma alvörusamkeppni inn á markaðinn.