140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig ekki hafa sagt í ræðu minni að heimilin borguðu niður orkuverð til stóriðjunnar, alls ekki. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um að að sjálfsögðu borgar stóriðjan niður orkuverð til heimilanna. En það sem ég á við er að það er undarlegt ef við ætlum að sinna einhverri einangrunarstefnu eins og að koma ekki með sæstreng til að halda niðri orkuverði á Íslandi þar sem mestur hluti af henni, 70–80%, er seldur til útlanda. Það er hagur okkar allra, þjóðarbúsins í heild sinni, að hækka verðið á orkunni.

Við getum sagt það nákvæmlega sama um fiskinn. Af hverju er ekki fiskur seldur á 100 kr. kílóið í búðum? Það yrði til hagsbóta fyrir heimilin, en þar sem við seljum meginhlutann af fiskinum til útlanda er það okkur í heild til hagsbóta að fiskverð sé hátt. Það nákvæmlega sama gildir um orkuna þannig að ég tel að menn eigi að skoða það í alvöru að selja auðlindir til 40 ára. Það er öndvert við það sem menn gerðu í Bandaríkjunum og víðast hvar annars staðar. Þar var þetta selt endanlega en hugmynd mín gengur út á að selja auðlindir til 40 ára og eftir 40 ár seljum við þær aftur. Það er það skemmtilega við að fara þessa leið vegna þess að 40 ár eru í huga fjárfesta nánast eilífð en ekki í huga þjóðarinnar.