140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

staða Íslands innan Schengen.

[13:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta var ekki svar, hæstv. innanríkisráðherra, vegna þess að ég spurði hvort ekki væri rétt að stíga þetta skref nú. Almannahagsmunir landsmanna hljóta að vera það ríkir að það verði skoðað hjá framkvæmdarvaldinu hvort ekki sé rétt að afnema og taka úr sambandi vegabréfaþáttinn í landamæraeftirlitinu, sér í lagi þegar þetta er farið að bitna hér líka á atvinnufyrirtækjum. Við heyrðum af ráninu sem var reynt að fremja í nótt í sömu skartgripabúðinni og fyrir einum og hálfum mánuði og þar komu ákveðnir aðilar við sögu.

Hæstv. ráðherra var að tala um að þingmenn Vinstri grænna hefðu verið á móti því þegar Ísland gerðist aðili að Schengen en það gerðist í mars 2001. Ég bendi á að þau ríki sem hafa síðan fengið aðild að Schengen eru til að mynda Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía og Tékkland. Listinn er langur. Það Schengen-samstarf sem Íslendingar gengu inn í árið 2001 er allt annað en er í dag með þessi ríki innan borðs. Ætlum við, hæstv. innanríkisráðherra, að taka á þessu vandamáli nú (Forseti hringir.) eða á að setja á stofn eina nefndina enn til að þurfa ekki að taka ákvörðun?