140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

eldsneytisverð og ferðastyrkir.

[13:49]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Á Íslandi hefur aldrei þróast norrænt velferðarkerfi sem kemur í veg fyrir fátækt meðal þeirra sem verða fyrir áfalli í lífinu. Greiðslur úr almannatryggingakerfinu duga ekki til framfærslu og markmiðið með slíku kerfi er að skapa hvata fyrir fólk til að stunda vinnu á launum sem duga ekki heldur fyrir útgjöldum. Framfærslubilið er síðan brúað hjá þessu fólki með framlögum ættingja og hjálparsamtaka og lánum í bankakerfinu.

Á tímum stöðugt hækkandi eldsneytisverðs verður sífellt erfiðara fyrir fólk að kosta ferðir á milli staða og til og frá vinnu. Þetta á ekki síst við um hreyfihamlað fólk og þá sem búa utan helstu þéttbýlissvæða og þurfa að sækja vinnu þangað. Á árunum 1997–2009 kostaði lítrinn af bensíni að jafnaði 178 kr. á verðlagi dagsins í dag en kostar í dag 255 kr. Hækkunin er til komin vegna verðhækkana á heimsmarkaði og aukinnar skattheimtu ríkisins sem er um fjórðungur af hækkuninni.

Virðulegi forseti. Uppbót á lífeyri til reksturs bifreiðar er í dag aðeins 12.115 kr. á mánuði og nægir þessi upphæð varla til þess að fylla bensíntank á venjulegum fólksbíl. Ég spyr því hæstv. velferðarráðherra hvernig hann hyggst bregðast við stöðu þeirra sem háðir eru bíl vegna hreyfihömlunar sinnar en þurfa engu að síður að sækja vinnu, skóla og ýmiss konar þjálfun á sjúkrastofnunum, oft um langan veg.