140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

eldsneytisverð og ferðastyrkir.

[13:51]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli mína þegar hv. þm. Lilja Mósesdóttir byrjar ræðu sína á því að segja að hér hafi aldrei verið norrænt velferðarkerfi. Ég held að það sé kominn tími á að við setjumst hér niður, eða réttara sagt stöndum hér í ræðustól, og ræðum hvað átt er við með norrænu velferðarkerfi. Ég geri ráð fyrir því að við hv. þingmaður séum sammála um margt í því en ég hef áður vakið athygli á því úr ræðustóli að menn nota þetta hugtak ansi misvísandi.

Norrænt velferðarkerfi byggir fyrst og fremst á því að taka háa skatta og endurraða þeim með millifærslukerfi til fólksins aftur þannig að við jöfnum kjör í landinu og tryggjum ákveðið öryggisnet. Það er rétt að það eru veikleikar í almannatryggingakerfinu á Íslandi. Í augnablikinu hefur þó lágmarkstryggingin hækkað frá því sem var á árinu 2007 — af því að hér var nefnt bensínverð — úr 120 þús. kr. fyrir einstakling sem býr einn í yfir 204 þús. kr. á mánuði. Þar er um að ræða gríðarlega lagfæringu, enda held ég að sá hópur hafi í sjálfu sér ekki lent í mestum vandræðum burt séð frá einstökum þáttum eins og varðandi bensínverð og eitthvað slíkt sem hér er nefnt.

Hópurinn sem við erum svo aftur að fylgjast með og erum í miklum vandræðum með er atvinnuleysishópurinn sem er ekki með nema 167 þúsund. Við horfum líka upp á að lægstu laun í landinu eru enn þá einhvers staðar í kringum 190 þúsund. Að vísu eru sem betur fer ekki margir á þeim launum en það er sú tala sem boðið er upp á. Þar erum við að tala um verulega erfiðleika við að ná endum saman.

Bensínverðið er eitt af þessu og menn hafa skoðað framfærsluna og stöðu fólks almennt í landinu. Sem betur fer býr Ísland við það þrátt fyrir allt og þó í samkeppni við Norðurlöndin að fátækt á Íslandi er minni en víðast hvar annars staðar, en það er augljóst að við þurfum að fylgja hlutunum eftir.

Varðandi bensínverðið hækkuðum við bensínstyrki til öryrkja (Forseti hringir.) með fullum þunga á síðasta ári en við höfum ekki getað keppt við þá hækkun sem hefur orðið vegna heimsmarkaðsverðsins, því miður. Við höfum ekki fundið svör við hvernig eigi að mæta nákvæmlega þessum kostnaði hjá einstaklingum því að þó að við hækkuðum það um 50% erum við að tala um 3 þús. kr. (Forseti hringir.) á mánuði.