140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

makríldeilan við ESB.

[14:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Kjarni málsins í þessu öllu saman er að hér er af hálfu Evrópusambandsins verið að tengja beint saman ágreininginn út af makrílveiðunum og aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Það liggur þá bara fyrir.

Ég fagna því hins vegar sem hæstv. ráðherra sagði, að erfitt yrði að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið ef það gengi eftir sem hér er hótað. Hann vakti enn fremur athygli á að með þessu væri auðvitað ekki verið að skapa boðlegar aðstæður til þess að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið. Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing og er auðvitað yfirlýsing sem íslensk stjórnvöld eiga hiklaust að koma á framfæri með beinum og formlegum hætti við Evrópusambandið, þó ekki væri nema til þess að reyna að stöðva viðræðurnar.

Aðalatriðið er að hér er um að ræða mjög alvarlegt mál, þessar hótanir eru árás á okkur af hálfu Evrópusambandsins. Þegar ljóst er að ákvörðun hefur verið tekin um þetta á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins með fulltingi fjölmargra þjóða (Forseti hringir.) getum við ekki litið á þetta sem innantóm orð. Þetta eru alvarlegar hótanir, hótanir sem okkur ber að taka mjög alvarlega. Þetta hlýtur að hafa áhrif, bara hótanirnar einar og sér, á framgang viðræðnanna við Evrópusambandið.