140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

makríldeilan við ESB.

[14:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel rétt að öllu sé til haga haldið og við byggjum enn sem komið er fyrst og fremst á upplýsingum í fjölmiðlaviðtölum við til dæmis írska ráðherrann. Þar talar hann við írska ríkisútvarpið til heimabrúks og við þekkjum það, íslenskir stjórnmálamenn, að menn láta oft hvína í sér í málum af slíku tagi. Við þurfum að sjálfsögðu að sjá hver verða hin formlegu viðbrögð, hver verður hinn formlegi framgangur málsins af hálfu Evrópusambandsins, en við þurfum engu að síður að taka málið mjög alvarlega. Ég hef óskað eftir því að það verði á dagskrá ríkisstjórnarfundar á föstudag þegar utanríkisráðherra verður vonandi kominn heim. Ef það gengur eftir sem hér er um rætt, að þeir muni flýta þessum aðgerðum, hlýtur það að bera í sér að þeir ætli að setja þær í framkvæmd fyrir upphaf þessarar makrílvertíðar og þá er ekki langur tími til stefnu til að takast á við það.

Við munum að sjálfsögðu óháð öllu öðru, hvort sem það eru viðræður við Evrópusambandið eða deilur um makríl, aldrei sætta okkur við ólögmætar viðskiptalegar þvingunaraðgerðir. Það er grundvallaratriðið sem við hljótum að berjast gegn, óháð öllu öðru. En samhengið gerir það ekki skemmtilegra að eiga við þetta mál, (Forseti hringir.) ef svo verður sem hér er gefið í skyn, að þarna verði grautað saman óskyldum málum, viðræðum okkar við Evrópusambandið annars vegar, makríldeilunni hins vegar og því sem þar fylgir.