140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

barátta lögreglu við glæpagengi.

[14:04]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að ræða málefni svokallaðra glæpagengja sem eru að því er virðist að festa rætur á Íslandi, einkum suðvestanlands og staðfest er af hálfu lögreglunnar. Mjög er deilt um hvort hæstv. innanríkisráðherra hafi gengið nógu hart fram og langt til að mæta þessum svokölluðu gengjum. Ég tel að góð og örugg löggæsla sé mjög brýnn hluti af velferðarþjónustu og að við viljum, öll sem hér erum, búa í öruggu og góðu velferðarsamfélagi og þar er löggæsla góður og mikilvægur hluti af heildarþjónustunni.

Ég tel að almenningur eigi í öllum tilvikum að njóta vafans þegar kemur að starfsemi svokallaðra ólöglegra glæpasamtaka sem sannarlega eru að festa sig í sessi hér á landi. Glæpagengin sjálf eiga ekki að njóta vafans. Þess vegna tel ég ráð, frú forseti, að Íslendingar fari að þeim ráðum sem aðrar norrænar þjóðir hafa gert á undanliðnum mánuðum, missirum og árum, þ.e. að náið sé fylgst með þessum gengjum, svo mjög að ekki þurfi staðfestan grun um yfirvofandi aðgerðir eða skipulagða starfsemi af þeirra hálfu. Ég tel mjög brýnt að stíga skrefið lengra en gert hefur verið vegna þess, eins og ég segi, að hér á almenningur að njóta vafans. Fyrirtæki á Íslandi eiga að njóta vafans. Heilt samfélag á að njóta vafans. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að stíga fast til jarðar og ganga skrefi lengra og horfa til þeirra aðgerða sem best hafa heppnast annars staðar á Norðurlöndunum til að eiga í fullu tré við þessa menn (Forseti hringir.) og í sumum tilfellum konur sem ætla að eyðileggja samfélag okkar. (Gripið fram í: Af hverju er aldrei talað …?)