140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

barátta lögreglu við glæpagengi.

[14:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ja, hvar skyldi best hafa heppnast á Norðurlöndunum eða þegar litið er víðar, til Evrópu, til Vesturheims? Ætli það sé ekki á Íslandi þar sem við höfum búið í ágætlega friðsælu samfélagi, að mestu leyti laus við skipulagða glæpastarfsemi af því tagi sem hv. þingmaður vísar til? Það er alveg rétt að lögreglan á Norðurlöndum býr við rýmri heimildir að ýmsu leyti en íslenska lögreglan. Það eru leyniþjónustur starfandi á Norðurlöndunum, og rúmar heimildir til að grípa til margvíslegra ráðstafana. Engu að síður eru hópar á borð við Hells Angels mjög sterkir í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og víðar. Það sem við erum hins vegar að gera á Íslandi er að stíga fast til jarðar en við gerum það yfirvegað og markvisst.

Ég hef trú á því að aðgerðir okkar séu þegar farnar að bera árangur. Alþingi samþykkti sérstakt framlag til lögreglunnar til að taka á skipulagðri brotastarfsemi fyrir ári. Þá voru 50 milljónir látnar renna til þeirrar starfsemi. Hv. formaður allsherjarnefndar, Björgvin G. Sigurðsson, hefur átt í viðræðum fyrir hönd nefndarinnar í innanríkisráðuneytinu og lýst áhuga á því að framhald verði á þessu framlagi og þar með þessari vinnu. Við áttum ágætan fund í allsherjarnefnd, fulltrúar lögreglunnar, fulltrúar innanríkisráðuneytisins og þingmenn í allsherjarnefnd, ekki alls fyrir löngu, (Forseti hringir.) þar sem við ræddum þessi mál þannig að við skulum ekki gera lítið úr því sem við erum að gera núna. Það er engan bilbug á okkur að finna.