140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Allt sem viðkemur Vaðlaheiðargöngum þolir dagsljósið. Öll gögn og skýrslur eiga að liggja frammi. Forsendur þurfa umræðu, og mat hlutlausra aðila á að liggja fyrir. Ég fagna því að sú sé raunin með þetta verkefni þó að mér hafi þótt skorta á sanngirni í umræðunni. Ég vonast til þess að með umræðunni í dag verði hægt að leiðrétta ýmsar fullyrðingar sem standast ekki nánari skoðun varðandi framkvæmdina.

Hvað sem öðrum framkvæmdum líður verða Vaðlaheiðargöng einhver mikilvægasta samgöngubót landsins. Þau koma til með að auka samkeppnishæfni svæða sem eru köld í atvinnulegu tilliti, tengja saman byggðarlög og auka umferðaröryggi.

Eftir á að hyggja voru fullyrðingar Samfylkingarinnar um „gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax“ fyrir kosningarnar 2007 forsmekkurinn að því sem koma skyldi. Umræðan á Alþingi og þá einkum í umhverfis- og samgöngunefnd hefur því miður verið á svipuðu plani. Ekki hefur mátt skilja annað en að framkvæmdin standi öðrum verkefnum fyrir þrifum, hún komi aldrei til með að standa undir sér og eigi að vera 100% arðbær í einkaframkvæmd. Sumar þessara fullyrðingum eru einfaldlega rangar, aðrar mjög villandi.

Í fyrsta lagi stendur verkefnið um Vaðlaheiðargöng ekki öðrum verkefnum fyrir þrifum. Það liggur 100% fyrir að ekki yrði hægt að fara hraðar í aðrar framkvæmdir eins og Norðfjarðar- eða Dýrafjarðargöng þótt Vaðlaheiðargöng yrðu blásin af. Þann misskilning hefur verið erfitt að leiðrétta og ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra staðfesti orð mín í þá veru vegna þess að hún hefur þegar látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að Vaðlaheiðargöng standi ekki öðrum verkefnum fyrir þrifum.

Það skal ekki dregið úr mikilvægi Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga. Þau eru gríðarlega mikilvægar samgöngubætur og eiga að vera á samgönguáætlun, unnin í ríkisframkvæmd og þar þarf að hefjast handa sem allra fyrst.

Í öðru lagi eru allar líkur á því að verkefnið standi undir sér. Ég segi „allar líkur“ því að auðvitað eru til staðar óvissuþættir þegar lagt er út í jafnstórt verkefni og þetta. Það ber að viðurkenna. Þetta staðfestir skýrsla IFS Greiningar þar sem skýrt kemur fram að allar forsendur um umferð um göngin og umsvif á framkvæmdatíma séu réttar og þarfnist ekki frekari skýringa. Þar kemur líka fram að höfuðstóll láns vegna ganganna verði alltaf greiddur að fullu en óvissa ríki um endurgreiðslu vaxta. Þá óvissu ber að viðurkenna og auðvelt er að minnka hana með nýrri fjármögnunaráætlun, auknu eigin fé eða auknum tryggingum.

Í þriðja lagi er villandi að segja að verkefnið sé unnið í hreinni og beinni einkaframkvæmd. Ástæðan fyrir því að talað hefur verið um einkaframkvæmd er að notendur ganganna munu greiða fyrir hana. Aðkoma ríkisins hefur hins vegar legið fyrir frá upphafi verkefnisins, í mörg ár og það hefur ekki breyst. Það var líka staðfest í lögum nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2010. Í þeim eru Vaðlaheiðargöng tilgreind. Allir alþingismenn greiddu atkvæði með þeirri aðgerð, aðeins tveir þingmenn Hreyfingarinnar lögðust gegn henni.

Eins og áður hefur komið fram segir í skýrslu IFS Greiningar sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið að helstu forsendur um stofnkostnað og rekstur séu innan raunhæfra marka. Jafnframt er gerð grein fyrir tveimur þáttum sem rétt sé að bregðast við, annars vegar óvissu um kjör við endurfjármögnun á skammtímaláni til félagsins og hins vegar lágu eigin fé félagsins. Þessir tveir þættir eru nátengdir. Við þessum ábendingum brugðust sveitarfélög innan Eyþings og stjórn Greiðrar leiðar með fréttatilkynningu þar sem segir:

„Hluthafafundur Greiðrar leiðar ehf. samþykkti í dag heimild til að auka hlutafé félagsins upp í allt að 400 milljónir króna.“ — Var þar með komið til móts við ábendingar IFS Greiningar.

Í augnablikinu er málið statt hjá Ríkisábyrgðasjóði sem mun væntanlega skila af sér á næstu dögum samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið. Ég fagna því að fljótlega verði hægt að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Samfélagið á Norðurlandi þarf svo sannarlega á því að halda. Ég kvíði heldur ekki niðurstöðu Seðlabankans því að hvað sem öðru líður verður alltaf ódýrasti kosturinn fyrir ríkissjóð að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng sem fyrst, án þess að missa verkefnið í hreina ríkisframkvæmd.

Ég óska líka eftir því og vona að þingmenn taki mið af þeim þjóðhagslegu þáttum sem snúa að verkefninu. Þeir eru gríðarlega mikilvægir. Fyrst má nefna að ætla má að ríkið fái í sinn hlut umtalsverða upphæð í formi launaskatta og ýmissa gjalda vegna framkvæmdarinnar. Áætlað hefur verið að kostnaðurinn vegna launa nemi allt að 40% af framkvæmdakostnaði og því má gera ráð fyrir að í ríkissjóð komi tekjur upp á 2–3 (Forseti hringir.) milljarða kr. af framkvæmdinni.

Virðulegi forseti. Í framhaldi má einnig skoða hvað það þýði fyrir ríkið að ekki verði af framkvæmdinni núna. Vaðlaheiðargöng eru á jarðgangaáætlun og ætla verður að Vaðlaheiðargöng verði komin á framkvæmdastig (Forseti hringir.) eftir einhvern árafjölda, þá að fullu á kostnað ríkisins. (Forseti hringir.) Áformin nú ganga út á að flýta þessari framkvæmd og fyrir þá flýtingu ætla menn að borga með veggjöldum.

Virðulegi forseti. Ég átta mig á því að ég er kominn aðeins fram yfir (Forseti hringir.) leyfilegan ræðutíma en mig langar að hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að svara mér í þessari umræðu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk og marka máli sínu þann hæfilegan ramma.)