140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:21]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Vaðlaheiðargöng hafa verið gagnrýnd en Vaðlaheiðargöng eru metnaðarfullt og mikilvægt verkefni sem þarf að ná fram að ganga. Það eru fleiri verkefni í jarðgöngum sem bíða og þarf að hrinda fram, svo sem Dýrafjarðargöng, Norðfjarðargöng og Vestmannaeyjagöng. Vestmannaeyjagöng koma senn á dagskrá aftur ef menn ná ekki að tryggja aðgang að Landeyjahöfn. Nú eru menn farnir að sjá að jarðgöng milli lands og Eyja hefðu verið besti og skynsamlegasti kosturinn. En látum það bíða um sinn.

Jarðgöng um Vaðlaheiði eru merkileg að því leyti að þar er á ferð frumkvæði heimamanna. Þar er reiknað með peningum frá heimamönnum og það er ekki ósvipað og hefur tíðkast hjá Vegagerðinni á undanförnum árum við sumarbústaðalönd. Ríkir sumarbústaðaeigendur hafa lagt peninga í vegagerð og fengið þá umbun fyrir að fá veg á undan öðrum. Fordæmin eru því til. Þetta þarf að leysa. Það þarf að tryggja að af þessari framkvæmd verði. Deilan um keisarans skegg heldur áfram hjá stjórnvöldum og það verður að bíða niðurstöðu hennar en fyrst og fremst er þetta merkilegt og mikilvægt verkefni fyrir það svæði þó að ekki séu allir á einu máli. Ég er til að mynda fylgjandi Vaðlaheiðargöngum en það eru ekki allir í mínum flokki eða þingmenn í öðrum flokkum. Þannig er þetta þverpólitískt mál en það þarf að leysa.

Að mínu mati þarf fyrst og fremst að virkja frumkvæði heimamanna og það er alveg ljóst að ef kostnaðaráætlun gengi ekki upp fengi ríkissjóður að minnsta kosti göng mjög ódýrt.