140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:33]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Lengi hefur legið fyrir að það hefur þurft að ráðast í framkvæmdir á vegum ríkisins með óhefðbundnari hætti en gert hefur verið, allt frá hruni. Í skýrslu sem fjármálaráðherra flutti Alþingi sumarið 2009, um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, segir, með leyfi forseta:

„Á næstu árum, á meðan á endurreisn efnahagslífsins stendur og rekstrargrundvöllur ríkissjóðs verður treystur, er óhjákvæmilegt að hægja á nýframkvæmdum en leitast við að veita áfram fjármagni til að viðhalda mannvirkjum, innviðum og opinberum fasteignum. Hins vegar hafa verið til skoðunar á vegum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóða hugmyndir um að þeir komi að fjármögnun stórra verklegra framkvæmda ef unnt verður að fjármagna þær með notendagjöldum.“

Þetta er yfirlýsing sem fjármálaráðherra flutti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sumarið 2009 og eftir henni hefur verið unnið. Samkvæmt þessari stefnu hefur meðal annars verið ráðist í framkvæmdir á hjúkrunarheimilum víða um land, það stendur til að fjármagna væntanlega byggingu Landspítalans með þessum hætti, vegaframkvæmdir o.s.frv. Þetta á ekki að koma nokkrum manni á óvart. Ekki er verið að ýta til hliðar nokkrum framkvæmdum í vegamálum eða á öðrum sviðum. Fyrst og fremst er verið að reyna að skapa forsendur og möguleika til að geta ráðist í framkvæmdir af þessu tagi frekar en að gera það ekki. Það er það sem þetta mál snýst um.

Fyrir liggja ótalmargar skýrslur um þá framkvæmd sem hér um ræðir sem flestar hverjar, að kannski tveimur undanskildum, benda til þess að þessi framkvæmd eigi að standa undir sér. Samkvæmt þeirri nýjustu sem hér hefur verið vitnað í, frá IFS Greiningu, sem birtist öðrum hvorum megin við áramót bendir allt til þess að 93% líkur hafi verið á því að framkvæmdin stæði undir sér, eins og hún var þá lögð upp. Síðan hefur eigið fé félagsins verið aukið þannig að þessi tala hefur frekar hækkað en hitt.

Virðulegi forseti. Ég held að verið sé að ræða um þessa væntanlegu framkvæmd á dálítið hæpnum (Forseti hringir.) forsendum. Hún hefur verið vel undirbúin af hálfu þingsins, fyrir liggja ótal gögn um að (Forseti hringir.) forsendur framkvæmdarinnar eigi að geta gengið upp. Eins og segir í niðurstöðum IFS Greiningar á verkefnið að geta gengið upp miðað við viðskiptaáætlun félagsins (Forseti hringir.) og helstu forsendur.