140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mjög áhugavert mál og atvinnuveganefnd fór mjög rækilega ofan í allar efnisgreinar þess og skýrði þær eins og ástæða var til. Ég vil nefna sérstaklega tvennt í þessu sambandi.

Annars vegar er það varúðarreglan, en í nefndaráliti segir svo þegar vikið er að henni, með leyfi virðulegs forseta, að það sé „ljóst að slík takmörkun á stefnumótunarkostum verður alltaf háð þeirri óvissu sem ríkir um inntak reglunnar og því svigrúmi sem ríki virðast njóta við mótun stefnu og innleiðingar hennar í landsrétt.“ Þarna er sleginn mjög mikilvægur varnagli.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir í þessum tillögum að kolefnisgjald á eldsneyti hækki um þriðjung. Nefndin túlkar þetta mál þannig, og það verður þá væntanlega samþykkt Alþingis, að þessi hækkun hafi þegar átt sér stað með þeim breytingum sem voru gerðar á kolefnisgjaldinu við síðustu fjárlagagerð. Ekki á því ekki að leiða til frekari hækkana á eldsneytiskostnaði af þeim ástæðum.

Þá liggur fyrir, verði þetta samþykkt, að gjaldið hefur verið hækkað, tekjurnar hafa runnið inn í ríkissjóð, og það er líka gert ráð fyrir því í þessu plaggi að þeim tekjum eigi síðan að verja til (Forseti hringir.) orkuskipta. Við á Alþingi hljótum þá að vænta þess og ganga út frá því sem gefnu að við fjárlagagerð næsta árs, (Forseti hringir.) en þá eiga þessar tillögur að taka gildi, verði þessum fjármunum varið til (Forseti hringir.) orkuskipta með þeim hætti sem kveðið er á um í tillögunni.