140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög greinargóð svör. Fram kom, og er mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu, að fyrri hv. samgöngunefnd sem hafði málið til umfjöllunar á fyrri stigum málsins fór heldur ekki yfir og rýndi í þessi gögn. Af hverju skyldi ég vekja athygli á þessu? Það er vegna þess að ég hef efasemdir um að þessi sparnaðaráform gangi eftir. Ég er ekki að fullyrða að þau geri það ekki því að ég hef engar forsendur til að vefengja starfsmenn ráðuneytisins um það að það gangi ekki eftir sem þeir telja. Ég er alls ekki að því, það má ekki skilja mig þannig, en ég geri hins vegar þá kröfu til þingsins og okkar sem hér störfum að við skoðum þau undirgögn sem leiða til þeirrar niðurstöðu að slík hagræðing geti átt sér stað. Það er líka þörf ábending í umræðunni að við erum með skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem segir okkur svart á hvítu að í 85% tilfella gangi ekki eftir þau sparnaðaráform sem eiga að nást með sameiningu stofnana. Það gefur augaleið að það er vegna þess að undirbúningurinn er ekki nægilega vandaður og þess vegna tel ég mikilvægt að við vöndum vinnubrögðin hvort heldur sem er í þessu máli eða einhverjum öðrum.

Þar fyrir utan tel ég reyndar og það kemur mjög skýrt fram í meirihlutaáliti fyrri samgöngunefndar við samþykkt þessa máls sem er fylgiskjal með þessu meirihlutaáliti, að þar sjá menn, og ég held að ég geti fullyrt að nánast allir hv. þingmenn í þeirri samgöngunefnd sem þar sátu sáu frekari hagræðingarmöguleika. En þá voru það þessir ráðuneytismúrar sem stoppuðu menn af, sem ég taldi að væri kannski búið að reyna að leggja niður að einhverjum hluta til en síðan þegar á reynir virðast þeir þvælast dálítið fyrir. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Kom það einhvern tímann til tals að fara í frekari sameiningar en (Forseti hringir.) hér eru boðaðar?