140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég deili á ýmsan hátt áhyggjum hv. þingmanns. Við eigum að reyna eftir bestu getu í þinginu að fara ítarlega í frumgögn og þau gögn sem fyrir liggja bæði í þessu máli og reyndar miklu fleiri og miklu stærri málum sem ekki er gert eins og hv. þingmaður veit. Eins og ég kom inn á er þetta mál búið að vera í mjög ítarlegri vinnu í langan tíma. Það eru ekki ýkja mörg mál sem koma hér inn þar sem að baki liggur svo mikil vinna. Mig langaði í þessu samhengi — ég held að flestir geti verið sammála um að oft koma sparnaðaráform eða hagræðing ekki í ljós alveg á fyrstu stigum heldur aðeins þegar fram í sækir. En það er gott að hafa í huga í þessum efnum að meginmarkmið þessara frumvarpa er líka, eins og hér stendur, að auka faglegan styrk, skýra verkaskiptingu, bæta þjónustu og árangur, efla, einfalda og auka gagnsæi stjórnsýslunnar og að tryggja markvissara samráð við hagsmunaaðila, efla samgönguáætlun og tryggja markvissa framkvæmd hennar og auka hagkvæmni og bæta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til samgöngumála og samþætta þróun og rannsóknir á sviði samgöngumála.

Ég tek þetta upp einfaldlega vegna þess að við erum ekki bara að tala um þetta mál út frá hagræðingu og hagkvæmni þótt það skipti vissulega máli í þessu samhengi. En það eru líka fagleg sjónarmið sem liggja þarna að baki.

Varðandi það hvort til tals hafi komið innan nefndarinnar frekari skipulagsbreytingar, já, það kom til tals og var sérstaklega spurt einmitt um það, líka með tilliti til nefndarálits fyrri samgöngunefndar sem ég vakti athygli á að fjórir af þeim sem skrifa undir álitið nú skrifuðu undir það þá. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því hvað það varðar að það er auðvitað ekkert í þessum frumvörpum sem kemur í veg fyrir frekari (Forseti hringir.) breytingar og því var haldið fram við okkur af hálfu ráðuneytisins að það yrði skoðað yrði sérstaklega (Forseti hringir.) þegar ramminn um þetta skipulag væri kominn með hvaða (Forseti hringir.) hætti hugsanlega frekari breytingar gætu átt sér stað.