140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[16:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel rétt að það komi fram, vegna þess að ég hafði ekki hugsað mér að flytja sérstaka ræðu — ég geymi það til 3. umr. sem verður væntanlega mjög spennandi hér eftir páska — að þegar menn ræða um þau nefndarálit sem út hafa verið gefin í þessu máli og öðrum er rétt að þeir muni að ég er ekki flutningsmaður annarrar af þeim tillögum sem síðast komu fram í umhverfisnefnd og varðar einmitt þá viðbót sem lögð var til við frumvarpið um að haldið yrði áfram sameiningaráformum í þá átt sem síðasti hv. ræðumaður lagði til. Ég er ósköp einfaldlega ekki sannfærður, við skulum hafa það orðalag á hlutunum, um að þessi hugmynd um sameiginlega stofnun hafs og stranda sé gæfuleg. Ég vil að minnsta kosti ekki fórna þeim áföngum sem hér eru í boði með hinni nýju Vegagerð og hinni nýju Farsýslu samkvæmt almennum nútímaprinsippum í stjórnsýslu fyrir óljósa hugmynd um sameiginlega stofnun hafs og stranda.

Ég held, alveg öfugt við hv. ræðumann, að þetta væri skref aftur á bak, skref aftur á bak til þeirra stjórnsýslutíma sem við lifum því miður að einhverju leyti enn þá, þegar menn litu á tiltekin svið sem nánast eins og lén eða jarlsdæmi, ríktu yfir þeim seint og snemma og embættið gekk nánast í erfðir, ef ekki eftir ættum þá að minnsta kosti eftir pólitíkusum og skólum í stjórnsýslu og verkfræði. Ég tel að þetta sé heillaskref sem við erum að stíga núna vegna þess að væntanlega verður af því sparnaður en ekki síður vegna þess að ég tel að stjórnsýslan batni við það.

Spurning mín til hv. þingmanns er sú: Er hann reiðubúinn til að fórna þessum áfanga í málinu fyrir óljósa hugmynd um einhverja stofnun hafs og (Forseti hringir.) stranda sem enginn veit hvernig á að vera?