140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[16:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður má ekki fyrtast við þó að ég lýsi forsendum efasemda minna um að hætta eigi við þetta mál og tefla því í tvísýnu vegna þess að menn hafa uppi hugmyndir úr skýrslum um sérstaka stofnun hafs og stranda.

Ég tel að stjórnsýslan eigi ekki að skiptast eftir gerðum heimsins, eftir því hvort átt er við hið blauta Ísland eða hið fasta Ísland, heldur eigi hún að skiptast eftir verkefnum og að hér sé komið skref í áttina, því að ég hefði viljað hafa það stærra. Ég hefði til dæmis viljað að Flugmálastjórn væri inni í Farsýslunni, ég hefði talið það algjörlega eðlilegt og skil ekki af hverju það var ekki gert og hafði athugasemdir við það á fyrri stigum málsins.

En við skulum bara virða, forseti, hvor annan og hver annan í þessu. Ég hef mínar forsendur og hv. þingmaður hefur sínar og hann hefur svarað því til heiðarlega og eðlilega sem ég spurði hann um, að hann sé ekki reiðubúinn að styðja málið óbreytt. Þá þurfum við að skoða í nefndinni hvort eitthvað sé hægt að sinna skoðunum hv. þingmanns í þessu. Mín skoðun er sú að við eigum að taka þetta skref núna, láta Flugmálastjórn bíða og skoða þá betur þessa hugmynd um stofnun hafs og stranda sem ég hef sumsé efasemdir um en lýsi ekki andstöðu við. Efasemdir mínar byggja á því sem ég sagði um sögu stjórnsýslu á Íslandi. Ég er því miður ekki til svara um af hverju þetta var ekki skoðað betur í sumar og ég held að það verði að bíða eftir þeirri ræðu sem við öll vonumst til að heyra á eftir frá hæstv. innanríkisráðherra, hann situr þarna og er að semja hana sýnist mér með sinni snilld og gáfum.