140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[16:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði líka í ræðu minni að menn gætu auðvitað haft aðrar skoðanir á þessu máli en ég og ég virti að sjálfsögðu að menn hefðu aðrar skoðanir. Ég hef rakið mín sjónarmið, ég byggi þau meðal annars á umsögnum sem liggja fyrir í málinu og er lítið fjallað um í nefndaráliti, sjónarmið sem koma frá Siglingastofnun sjálfri, frá Hafnasambandi Íslands, frá starfsmönnum o.s.frv. Mér finnst þau viðhorf í raun ekki hafa fengið næga umfjöllun. Það kann að vera að um þau sjónarmið hafi verið rædd sérstaklega á nefndarfundum eða að gestir hafi komið fyrir nefndina og fjallað um þau þar og menn hafi skipst á skoðunum um þau á þeim vettvangi, það er ég ekki til frásagnar um. Mér finnst að minnsta kosti að þeim röksemdum sé ekki mætt í nefndaráliti, ég fæ ekki séð það og þess vegna sakna ég þess að menn hafi ekki fjallað sérstaklega um þetta.

Varðandi það að hafa stofnanirnar stærri þá get ég alveg tekið undir að þær mættu jafnvel vera stærri og þess vegna hef ég verið að tala um siglingamálin, málefni sem heyra undir Landhelgisgæsluna, að hluta til undir Hafrannsóknastofnun eða Umhverfisstofnun, Fiskistofu, Vaktstöð siglinga o.fl. sem að mínu mati ættu heima í einni stofnun. Að tala hins vegar bara um að sameina sameiningarinnar vegna og ekki eigi að skilja á milli þess sem er blautt og þess sem er þurrt — þá má auðvitað fara um víðan veg í stjórnkerfinu og segja að margar stofnanir mættu heyra þarna undir, ef það væri eini tilgangurinn en ég lít ekki svo á.

Að sjálfsögðu þarf að vera efnahagslegur ávinningur af þeim ráðstöfunum sem gerðar eru en ekki síst þarf að huga að hinu faglega. (Gripið fram í.) Ég rakti það í máli mínu að ég tel eðlismun á Siglingastofnun hvað þetta varðar og því sem fjallar um flugmálin og landsamgöngurnar. En ég hef ekki tíma til að fara yfir það frekar.