140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að nefna aðeins tvennt eða þrennt í framhaldi af ræðu hæstv. ráðherra. Hann sagði í máli sínu að hér hefði komið fram að menn væru á móti breytingum en stjórnsýslan þyrfti einmitt að vera í sífelldri endurskoðun. Ég veit ekki hvort hann var að vísa í mitt mál, það var ekki alveg ljóst af ræðu hans en ég vil þó undirstrika það að í máli mínu kom alls ekki fram að ég væri á móti breytingum á þessu sviði nema síður væri. Ég tók sérstaklega fram að ég teldi að það ætti að gera breytingar á þessu stofnanakerfi en ég væri ekki sammála þeirri leið sem valin væri. Ég vísaði þar sérstaklega í skýrslu nefndar um framtíðarskipan þessara mála og tel synd að ekki hafi strax í upphafi verið farið eftir þeirri leið sem sú nefnd mælti sérstaklega með. Ég tel að hún hefði skilað meiri árangri og hagræðingu og betri samfellu í störfum eins og nefndin segir sjálf og kemur fram í skýrslu hennar.

Hitt var annað sem ég gerði athugasemdir við og það var að í framhaldi af því sem kom fram í nefndaráliti meiri hluta samgöngunefndar á síðasta þingi hefðu aðrar leiðir ekki verið skoðaðar. Ráðherrann sagði það ekki rétt vera og það hefði ítarlega verið skoðað í innanríkisráðuneytinu. En þess sér hvergi stað í gögnum málsins. Þess sér ekki stað í frumvarpinu sem var lagt fram í haust, í greinargerð með frumvarpinu er ekki fjallað um að það hafi verið skoðað eða rökin fyrir þeirri leið sem valin var og þess sér heldur ekki merki í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar að það hafi verið gert. Er nema von að menn spyrji: Af hverju fór þessi vinna ekki fram? Ráðherrann segir: Jú, hún fór fram. En þau rök eru ekki reidd fram við þessa umræðu og (Forseti hringir.) menn hljóta að kalla eftir því.