140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

viðvera ráðherra við umræðu.

[17:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er að hefjast umræða um breytingar á lögum um náttúruvernd. Þetta frumvarp er því marki brennt að það felur í sér mjög miklar og opnar heimildir til hæstv. umhverfisráðherra að setja hér reglugerðir. Það er raunar sérstaklega fjallað um það og vakin athygli á því í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að þetta sé sú þróun sem sé varðandi löggjöfina, sérstaklega á umhverfissviðinu. Það gerir það að verkum að til að þessi umræða geti gengið fram þarf að óska eftir því að hæstv. umhverfisráðherra sé hér viðstaddur.

Það má út af fyrir sig segja sem svo, sem við þekkjum að er hið klassíska svar við óskum af þessu taginu, að þess þurfi ekki vegna þess að málið sé á forræði Alþingis. Þetta er ekki alveg svona einfalt í þessu tilviki vegna þess að eins og þetta frumvarp er úr garði gert, og með þeim breytingartillögum sem þar eru gerðar, er verið að veita mjög miklar reglugerðarheimildir til hæstv. ráðherra þannig að forræði málsins fer að svo miklu leyti úr höndum Alþingis eftir að lögin hafa verið sett vegna þess að framkvæmdin og raunar útfærsla laganna ræðst algjörlega af (Forseti hringir.) þeim reglusetningum sem verða gerðar af hálfu hæstv. umhverfisráðherra. (Forseti hringir.) Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. umhverfisráðherra sé kvaddur til þessarar umræðu.