140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

viðvera ráðherra við umræðu.

[17:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir athugasemdir hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar og hvet forseta til að koma því á framfæri við hæstv. umhverfisráðherra að ráðherrann sé við þessa umræðu. Ég tek undir það að við lestur frumvarpsins veltir maður því fyrir sér hvort þetta sé hálfunnið allt saman og ráðherra eigi bara að klára þetta þegar tækifæri gefst til.

Í það minnsta held ég að ráðherra hafi gott af því að sitja hér og heyra þær athugasemdir sem munu þá koma fram því að það er ýmislegt í frumvarpinu, og þeim nefndarálitum sem lögð eru fram, sem kalla á að ráðherrann heyri þær athugasemdir sem settar verða fram. Auk þess er mjög sérstakt að helstu álitaefnum — auðvitað er það persónubundið hver menn telja þau vera — sé nánast vísað til ráðherrans eins og ég skil málið.