140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

viðvera ráðherra við umræðu.

[17:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér þykir algjörlega nauðsynlegt að fulltrúar þeirra flokka sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson og Einar K. Guðfinnsson eru í, fulltrúar þeirra í umhverfisnefnd, séu viðstaddir þessa umræðu því að þeir hafa greinilega vanrækt að koma upplýsingum til sinna manna í þingflokkunum og ég bið um að þeir séu kallaðir til. Það er hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, eini fulltrúi Framsóknarflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd — hann er ekki hér, og mér þykir það miður. Hefur hann fjarvist og af hvaða sökum er það?

Síðan vantar hér hinn skelegga og vörpulega hv. þingmann Suðurk. og Sjálfstæðisflokksins, Árna Johnsen, sem mikilvægt er að hafa í þessari umræðu. Hann hefur unnið þróttmikið gagn með störfum sínum í umhverfis- og samgöngunefnd að hv. þm. Birgi Ármannssyni ólöstuðum sem þar hefur líka mætt mjög vel og lagt margt gott til einmitt þessara mála.