140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurning mín laut kannski ekki að sálarró okkar hv. þingmanns heldur fyrst og fremst að því hvort meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar og eftir atvikum nefndin sjálf hafi ekki farið ofan í það hvort þær athugasemdir sem fram hafa komið frá aðilum sem við hljótum að taka mark á um að þetta frumvarp kunni mögulega að varða við stjórnarskrá og það feli í sér einhvers konar skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignarréttindum.

Þess vegna spurði ég eftir því hvort ekki hefði verið reynt að leita álits sérfróðra manna í þessum efnum. Ég met það auðvitað mjög mikils að nefndin hafi skoðun á þessu og það er ekkert undan því að kvarta. En sú skoðun ætti auðvitað að styðjast við mjög vandlega athugun þeirra sem þekkja best til í þessum efnum og með fullri virðingu fyrir nefndinni hefði ég talið að í þessu sambandi hefði verið eðlilegt, þegar vélað er um hluti sem snúa að eignarréttinum, að athuga hvort frumvarpið fæli í sér skerðingu á eignarrétti. Um það snýst þetta mál.

Síðan eru það vangaveltur hv. þingmanns um það hvernig landeigendur fara með land sitt. Það skiptir miklu máli og bændur og landeigendur eru auðvitað bestu vörslumenn lands okkar eins og við þekkjum og þeir hafa almennt farið vel með það. Ég held að það sé einmitt eignarrétturinn sem gerir það að verkum að bændur hafa mikla hagsmuni af því að fara vel með landið sitt, að eyðileggja það ekki í höndunum á sér, eyðileggja ekki þá eign, þau verðmæti sem eignarrétturinn á landinu færir þeim. Þess vegna er það mín skoðun að ég treysti mjög vel bændum og landeigendum almennt til að fara vel með landið sitt og þó að auðvitað þurfi að setja ákveðnar umgengnisreglur mega þær ekki vera svo íþyngjandi að þær gangi á eignir manna og varði þannig við stjórnarskrána sem við höfum öll svarið eið að.