140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við í meiri hlutanum sáum ekki ástæðu til að kalla til sérstaka fræðinga um eignarrétt stjórnarskrárinnar í samhengi við þetta frumvarp enda sé ég satt best að segja ekki alveg í hvað hv. þingmaður er nákvæmlega að vísa.

Ég get að sjálfsögðu tekið undir það og ég held að það sé mjög brýnt að við reynum af fremsta megni að vinna saman með vörslumönnum landsins. Meðal annars var komið inn á það í nefndarálitinu hversu brýnt það væri því að auðvitað vilja landeigendur og bændur upp til hópa fara vel með land sitt. Og ef það er svo hljóta þeir hinir sömu að fagna þessu frumvarpi vegna þess að í því er nákvæmlega verið að taka á illri meðferð lands, annars vegar er varðar akstur utan vega og hins vegar er varðar afar mikilvæga þætti í náttúru Íslands sem ber að vernda og sem við höfum því miður haft of fábrotin tæki til að framkvæma með nógu góðum og skilmerkilegum hætti. Satt best að segja eigum við enn þó nokkuð langt í land og í raun þurfa að koma fram ýmsar aðrar breytingar til þess við stöndum okkur eins vel og við ættum að gera á alþjóðavísu. Við getum þar margt lært af öðrum ríkjum.

Ég held að stærsta spurningin sé ekki sú sem lýtur að eignarréttindum heldur sú hvort við getum tekið höndum saman með vörslumönnum landsins við að passa upp á landið og fara með það eins vel og hægt er.