140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla bara að ítreka það sem kom fram í ræðu minni og kannski skýra, ef ég hef verið óskýr, að ég tel einmitt vera víðtæka samstöðu um þann hluta þessa frumvarps sem lýtur að utanvegaakstri á hálendi Íslands og allir vilji gera það sem gera þarf til að stöðva hann og að skynsamlegt sé að setja þar inn skýrari ákvæði og setja inn þessa slóða í samstarfi við sveitarfélögin, sem hafa skipulagsvald á viðkomandi svæðum, og þar með sé ljóst hvaða slóða megi fara og hvaða slóða megi ekki fara.

Um leið og við erum farin — og það gerir frumvarpið — að draga eignarlönd fólks og bænda inn í sama hugsanakerfi þá kviknar tortryggni. Til hvers er verið að því? Er það vegna þess að menn telja það stórkostlegt vandamál? Ég tel að svo sé ekki. Ég tel að sú leið sem Bændasamtökin benda á en ekki síst Landssamtök landeigenda hefði verið skynsamlegri, að fara inn með skýrt undanþáguákvæði um að þetta gilti ekki um eignarlönd og landbúnað og slíkt en utanaðkomandi aðilum væri jafnóheimilt að fara þar um eins og um þjóðlendur. Þá væri búið að taka á því, því að sumar jarðirnar eru gríðarlega stórar, við þekkjum það, og ná jafnvel upp að afréttarlöndum og heiðarlöndum, með því að skilgreina að öllum utanaðkomandi aðilum væri óheimilt að keyra þar utan vega en hefðbundinn landbúnaður og umsýsla lands og veiði væri þar undanþegin. (Forseti hringir.) Það hefði verið skynsamlegri leið og um það hefði verið meiri samstaða bæði í þinginu og í landinu öllu.