140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[19:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég taldi óþarft að geta þess að að sjálfsögðu tek ég mark á því að það sé lögmæt fjarvist, væri samt kannski betra að hún væri tilkynnt, að menn séu veikir og með veikt barn heima. Þá spyr ég: Var hv. þm. Ásmundur Einar Daðason alltaf veikur og alltaf með veikt barna heima þegar þessi störf fóru fram í nefndinni?

Það er auðvitað óþægilegt fyrir vinnubrögð á þinginu að menn standi sig ekki í nefndunum, að flokkarnir standi sig ekki í nefndunum, þannig að ég sé ekki að persónugera málið, og þess vegna komi vandamálin fram í 2. umr., þau viðhorf sem eðlilegt er að fulltrúar einstakra flokka hafi. Í þessu tilviki verð ég að segja að af sögulegum sjónarhóli, og er alls ekkert ókurteislegt eða óviðkunnanlegt og algjörlega eðlilegt, að fulltrúi Framsóknarflokksins, gamla bændaflokksins, hafi áhyggjur af hagsmunum bænda og landeigenda. Það er algjörlega eðlilegt en það hefði verið betra að það hefði komið fram í nefndinni, það er það sem ég er að tala um.

Um votlendið er það að segja að þá bara kemur það fram að hér er pólitískur ágreiningur á ferðinni. Ég tel að það sé rétt árið 2012 að vernda 95% af því votlendi sem ekki hefur verið raskað, sem er allt of mikið. Öll 20. öldin fór í það að grafa skurði á Íslandi, að ryðja votlendinu burt, af því að það þóttu framfarir á þeim tíma. Við verðum að virða þá sem að baki því stóðu en ég tel að nú verðum við að snúa við. Hv. þingmaður telur að það sé nóg að vernda 60% votlendis og síðan séu þessi 35% í viðbót, að það eigi að fara eftir smekk og behag í einstökum sveitarstjórnum og meðal einstakra landeigenda. Við erum bara ósammála um þetta og það kemur í ljós hér í atkvæðagreiðslu að lokum.

Um birkiskógana er það að segja að hv. þingmaður, vegna þess að hann hefur ekki notið aðstoðar fulltrúa síns í nefndinni, fer enn villur vegar í því. Ekki er verið að tala um að vernda alla birkiskóga, það er ekki þannig, heldur er verið að tala um að vernda, með leyfi forseta, beint upp úr frumvarpi til laga, þá birkiskóga:

„sem einkennast af náttúrulegri nýliðun og aldursdreifingu, þar sem eru m.a. gömul tré og þar sem vex dæmigerður botngróður birkiskóga, sem og leifar þeirra.“

Það er því verið að tala um tiltekna birkiskóga og það er rétt að menn hafi það algjörlega á hreinu áður en þeir fara hér með staðlausa gagnrýni á frumvarpið.