140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd þingsins funduðu í annað sinn í morgun um svokallað kaupþingslán eða lán með veði í FIH-bankanum vegna frétta um að útlit gæti verið fyrir að af því láni töpuðust nokkrir fjármunir. Hvers vegna Seðlabankinn ákvað að lána Kaupþingi 6. október 2008 500 millj. evra, eða liðlega 80 milljarða íslenskra króna, í lausafé hefur verið mörgum ráðgáta. Nú lítur út fyrir að nokkur hluti þess láns muni vart endurheimtast þvert gegn því sem þá var sagt. Það gefur Alþingi tilefni til að kanna vel hvernig að þessari ákvörðun var staðið, hver tók hana, við hverja var haft samráð, meðal annars að kanna samráð við stjórnvöld, hver var aðkoma JP Morgan að málinu og hvernig var leitast við að tryggja að fjármunirnir sem veittir voru á þessari neyðarstundu yrðu nýttir til þess sem yfir var lýst að ætti að nýta þá til.

Í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurnum mínum kemur fram að til eru í bankanum afrit af þeim samtölum sem fram fóru milli seðlabankastjóra og forsætisráðherra um þetta efni þannig að auðvelt ætti að vera að kanna það sem lýtur að samráðinu auk þess sem upplýsingar eiga að vera til um ráðgjöf JP Morgan í þessu efni. Það var ekki formleg samþykkt bankastjórnar fyrir þessari lánveitingu. Það var ekki útbúinn lánasamningur og ýmislegt annað sem réðist kannski af aðstæðum og því tímahraki sem ákvörðunin var tekin í. Það er mikilvægt fyrir okkur að læra af þessu og reyna að nýta okkur þessa reynslu til að tryggja að hér verði betri viðbúnaður þegar og ef slíkar aðstæður skapast aftur.

Ég legg áherslu á það að nefndir þingsins gangi eftir því að fá þessar upplýsingar fram.